Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
banner
   fös 23. ágúst 2024 15:16
Elvar Geir Magnússon
Jói Berg um Sádi-Arabíu: Of gott tækifæri til að geta hafnað því
Jóhann Berg Guðmundsson er kominn til Sádi-Arabíu.
Jóhann Berg Guðmundsson er kominn til Sádi-Arabíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var tækifæri sem ég bjóst ekki við að fá. Þegar það kom upp var það of gott til að hafna. Þetta er spennandi verkefni," segir landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson sem var í dag kynntur sem leikmaður Al-Orobah í Sádi-Arabíu.

„Mér fannst ég kannski þurfa á nýrri áskorun að halda og þetta tækifæri kom. Ég er á seinustu árum ferilsins og ég vil spila fótbolta eins lengi og ég get. Mér fannst rétta skrefið fyrir mig að grípa þetta tækifæri. Þetta var eitthvað sem ég bjóst alls ekki við að fá."

„Við erum að fara inn í allt aðra menningu en við erum frá Íslandi og getum aðlagast býsna vel. Það verður auðvitað erfitt fyrir fjölskylduna að kveðja hér, við höfum verið hér í átta ár og erum ánægð. Þetta er mikil breyting en við getum vaxið sem fjölskylda. Aðdragandinn var ekki langur og ég flýg þangað í dag og næ nokkrum leikjum fyrir landsleikjagluggann."

Jóhann Berg er 33 ára og kveður nú Burnley í annað sinn en hann yfirgaf félagið eftir síðasta tímabil og samdi svo óvænt aftur við það. Hann kveður með stæl því hann skoraði í stórsigri gegn Cardiff síðasta laugardag.

„Það var erfitt að kveðja Burnley, koma svo til baka og nú er ég að kveðja aftur. Það eru miklar tilfinningar. Það var eitthvað töfrandi við það að spila aftur á Turf Moor og ná að skora. Ég er gríðarlega ánægður með að spila menn síðasta leik á vellinum og ná að skora í 5-0 sigri," segir Jóhann í viðtali við fjölmiðladeild Burnley.

Viðtalið má sjá í heild hér að neðan en þar kveður hann stuðningsmenn Burnley á tilfinningaríkan hátt.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner