
Kvennalið Bayern Munchen hefur farið með himinskautum í þýsku úrvalsdeildinni. Liðið hefur unnið þýsku deildina síðustu þrjú tímabil og gefur liðið ekkert eftir þrátt fyrir þjálfaraskipti. Bayern er á toppi deildarinnar eftir sjö leiki, með fjögurra stiga forskot á Wolfsburg.
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og Bayern Munchen, ræddi um góða byrjun liðsins í viðtali við Fótbolta.net fyrr í dag.
„Við höfum byrjað tímabilið mjög vel, erum með nýjan þjálfara og það eru smá breytingar. Við erum að reyna aðlagast því hvernig hann vill að við lítum út á vellinum. En við höfum verið að ná í úrslit í deildinni sem hafa verið góð og erum á góði róli þar, en það er alltaf hægt að gera margt betur.“
Glódís var fjarverandi í síðasta leik Bayern vegna meiðsla í hné.
„Ég er búin að vera í smá brasi með hnéð á mér, búin að vera með smá bólgur og einhver svona leiðindi. Við höfum verið að passa upp á heildarálagið. Af því ég spilaði á fimmtudeginum þá var tekin sú ákvörðun að ég myndi hvíla seinni leikinn,“ sagði Glódís.
Fjarvera hennar kom þó ekki að sök, því Bayern vann Köln sannfærandi, lokatölur 5-1. Íslenska landsliðið mætir Norður Írum í umspili Þjóðadeildarinnar annað kvöld en Glódís segist vera klár í slaginn fyrir morgundaginn.