Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, hrósaði frammistöðu sinna manna og vítaspyrnum Arsenal er liðið datt út í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld.
Arsenal hefði hæglega getað skorað þrjú ef ekki fjögur mörk í fyrri hálfleiknum ef það hefði ekki verið fyrir Walter Benitez í marki gestanna.
Í seinni kom Palace sterkt til leiks en fékk á sig mark á 80. mínútu er Maxence Lacroix stýrði skalla Riccardo Calafiori í eigið net. Marc Guehi jafnaði metin seint í uppbótartíma og kom Palace í vító.
Þar skoraði Arsenal úr öllum spyrnum sínum en Kepa varði áttundu spyrnu Palace og fór því Arsenal áfram í undanúrslitin.
„Það er alltaf þannig með vítaspyrnukeppnir að eitt spark getur ráðið úrslitum. Við klúðruðum þeirri spyrnu í dag en það er ekki hægt að kenna neinum um. Í fyrri hálfleik spiluðum við illa, en mun betra að sjá liðið og bara hvernig við mættum inn í seinni hálfleikinn.“
„Síðan fáum við á okkur mark sem var eins og 'deja vu' frá deildarleiknum. Ég verð samt að hrósa liðinu að koma aftur til baka og komast í vító. Þar getur allt gerst. Við höfum unnið tvisvar á þessu ári, en Arsenal var heppnara liðið í kvöld. Spyrnurnar þeirra voru svo góðar.“
„Ég hef séð margar vítaspyrnukeppnir en man ekki eftir einni keppni þar sem hver einasta vítaspyrna var svona góð. En allt í lagi það þarf einhver að klúðra annars hefði þessi keppni staðið yfir til morguns. Því miður var það í okkar hlut að klúðra, en við getum byggt ofan á frammistöðuna í síðari hálfleiknum.“
„Bara hvernig við spiluðum í seinni hálfleiknum og mættum þeim. Það eru allir að segja við okkur: „Í svo mörgum leikjum lítið þið út fyrir að vera búnir á því og þreyttir" en ef það er staðan þá hefðum við ekki getað komið til baka eins og við gerðum í þessum leik. Ekki í seinni hálfleiknum með þessari frammistöðu eða eftir að við lendum 1-0 undir. Ef við byggjum ofan á frammistöðuna í seinni hálfleik munum við eiga frábært tímabil,“ sagði Glasner.
Athugasemdir



