Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 24. mars 2023 20:25
Ívan Guðjón Baldursson
Enska úrvalsdeildin sigar rannsóknarteymi á Everton
Mynd: EPA
Þegar Everton bjargaði sér frá falli í fyrra.
Þegar Everton bjargaði sér frá falli í fyrra.
Mynd: Getty Images

Enska úrvalsdeildin hefur ráðið inn óháð rannsóknarteymi til að rannsaka möguleg reglubrot Everton á fjármálareglum ensku úrvalsdeildarinnar.


Enska úrvalsdeildin neitaði að tjá sig um málið að öðru leyti en að brotin áttu sér stað frá tímabilinu 2019-20 til tímabilsins 2021-22, sem lauk í fyrra.

Everton hefur verið rekið í tapi undanfarin ár en stjórn félagsins segist ekkert botna í niðurstöðu ensku úrvalsdeildarinnar um að láta rannsaka félagið af þriðja aðila.

„Everton mótmælir þessum ásökunum harðlega. Félagið hefur ráðfært sig við teymi óháðra sérfræðinga vegna málsins og komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðir félagsins hafi verið í samræmi við reglugerðir. Félagið hefur sýnt fullan samstarfsvilja með fótboltayfirvöldum á Englandi á undanförnum árum," segir meðal annars í yfirlýsingu.

Það er liðið ár síðan Everton tilkynnti 121 milljón punda tap fyrir tímabilið 2020-21, en yfir þrjú tímabil var Everton rekið með 372 milljóna punda halla. Það er 267 milljónum yfir leyfð hallamörk úrvalsdeildarfélaga yfir þriggja ára tímabil.

Þetta eru slæmar fréttir fyrir Farhad Moshiri, eiganda Everton, sem kennir Covid-19 faraldrinum um fjárhagstap félagsins. Everton er að byggja nýjan leikvang og gæti neikvæð niðurstaða í þessu máli komið sér afar illa fyrir félagið sjálft, þar sem liðið er í fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni sem stendur.

Önnur úrvalsdeildarfélög hafa sett spurningarmerki við eyðslusemi Everton og lögðu bæði Leeds United og Burnley, sem voru ásamt Everton í fallbaráttunni á síðustu leiktíð, inn formlega kvörtun í fyrra.

Svipað mál, sem er þó talið vera talsvert stærra, er í gangi gegn ríkjandi Englandsmeisturum Manchester City. Þeir eru ásakaðir um víðtæk brot á reglum ensku úrvalsdeildarinnar yfir lengra tímabil.


Athugasemdir
banner
banner