
Danska stórveldið FC Nordsjælland er búið að ganga frá kaupum á Rebekku Sif Brynjarsdóttur úr röðum Gróttu en hún er aðeins 16 ára gömul.
Rebekka hefur lengi vel verið ein efnilegasta fótboltastelpa Íslands þar sem hún er með 23 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur leikið tvo leiki með U19 liðinu þrátt fyrir að vera ekki nema 16 ára.
Nordsjælland tókst að semja við Rebekku og fjölskyldu hennar og flytur hún út til Danmerkur núna um mánaðamótin.
Nordsjælland er eitt af sterkustu liðum danska kvennaboltans þar sem liðið varð meistari 2024 og endaði í öðru sæti í deild og bikar í ár.
Rebekka Sif hefur æft fótbolta með Gróttu frá fjögurra ára aldri og spilaði jafnt með stelpum sem strákum upp yngri flokkana.
Hún hefur skorað 9 mörk í 28 leikjum með Gróttu í Lengjudeildinni og er ljóst að hún á framtíðina svo sannarlega fyrir sér í fótboltaheiminum. Hún er komin með 5 mörk í 10 leikjum í Lengjudeildinni í sumar.
„Allir sem koma að starfi knattspyrnudeildarinnar munu sakna Rebekku - en efst í huga er þó gleði og stolt yfir enn einum Gróttuleikmanninum sem er á leið í atvinnumennsku. Rebekka Sif er einstök ung kona. Velgengnin í fótboltanum hefur aldrei stigið til höfuðs og hún er glaðlynd, kurteis og almennileg við alla sem á vegi hennar verða. Ekki síst yngri iðkendur félagsins en Rebekka hefur síðustu mánuði starfað sem aðstoðarþjálfari og leiðbeinandi í knattspyrnuskólanum," segir meðal annars í færslu frá Gróttu.
Síðasti leikur Rebekku með Gróttu verður á Seltjarnarnesi annað kvöld, þegar Grótta tekur á móti Grindavík/Njarðvík í toppbaráttu Lengjudeildarinnar.
Athugasemdir