Man Utd gæti reynt við Pope - Arsenal vonar að Palace lækki verðið á Eze
   þri 29. júlí 2025 19:20
Ívan Guðjón Baldursson
Dortmund skoðar kaup á Sancho
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Kantmaðurinn Jadon Sancho er að vekja athygli á sér víðs vegar um Evrópu en óljóst er hvort honum takist að semja við nýtt félag vegna hárra launakrafna.

Sancho virðist ekki eiga framtíð hjá Manchester United en þessi 25 ára gamli leikmaður er aðeins með eitt ár eftir af samningi og möguleika á eins árs framlengingu. Rauðu djöflarnir vilja því helst selja hann í sumar en samningaviðræður leikmannsins við verðandi vinnuveitendur gætu reynst erfiðar.

Sky Sports greinir frá því í dag að Borussia Dortmund, fyrrum vinnuveitendur Sancho, hafa áhuga á því að kaupa leikmanninn aftur til félagsins.

Ítalska stórveldið Juventus er einnig mjög áhugasamt en þarf að selja leikmenn til að fjármagna kaupin á Sancho.

Man Utd keypti Sancho upprunalega úr röðum Dortmund sumarið 2021 og kostaði leikmaðurinn þá 73 milljónir punda. Hann fann ekki taktinn í Manchester og var lánaður aftur til Dortmund fyrir seinni hluta tímabilsins 2023/24. Hann stóð sig vel þar og hjálpaði Dortmund að komast alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Ítalíumeistarar Napoli og félög frá Sádi-Arabíu hafa einnig sýnt Sancho áhuga í sumar.

Man Utd vill helst selja leikmanninn en skoðar einnig lánstilboð með kaupskyldu eða árangurstengdri kaupskyldu í það minnsta.

Talið er að um það bil 20 milljónir punda geti nægt til að kaupa Sancho frá Manchester.
Athugasemdir
banner