Ítalska stórveldið Inter vill kaupa Ademola Lookman úr röðum Atalanta en félögin eiga eftir að ná samkomulagi um kaupverð.
Síðasta tilboð Inter hljóðaði upp á 42 milljónir evra auk 3 milljóna í árangurstengdar aukagreiðslur, eða 45 milljónir í heildina, en Atalanta stendur fast á sínu. Félagið vill fá 50 milljónir fyrir Lookman.
Lookman er ensk-nígerískur sóknarleikmaður með tvö ár eftir af samningi hjá Atalanta. Hann er 27 ára gamall og vill ólmur skipta yfir til Inter. Hann hefur nokkrum sinnum beðið félagið um að selja sig í sumar og ræddi aftur við stjórnendur eftir nýjasta tilboðið frá Inter.
Hann hefur engan áhuga á því að vera áfram hjá Atalanta en hann hefur verið meðal bestu leikmanna liðsins undanfarin ár. Lookman kom að 27 mörkum í 40 leikjum á síðustu leiktíð og er hann spenntur fyrir nýrri áskorun á ferlinum.
Lookman, sem hefur skorað 8 mörk í 29 landsleikjum með Nígeríu, lék mikilvægt hlutverk er Atalanta vann Evrópudeildina í fyrra.
Athugasemdir