Man Utd gæti reynt við Pope - Arsenal vonar að Palace lækki verðið á Eze
   þri 29. júlí 2025 22:18
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikar kvenna: FH sló Val út á Hlíðarenda
Kvenaboltinn
FH fagnar sigrinum í kvöld.
FH fagnar sigrinum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 2 - 3 FH
1-0 Elín Metta Jensen ('2)
1-1 Elísa Lana Sigurjónsdóttir ('4)
1-2 Maya Lauren Hansen ('29)
2-2 Elísa Viðarsdóttir ('81)
2-3 Margrét Brynja Kristinsdóttir ('119)

Lestu um leikinn: Valur 2 -  3 FH

Það var gríðarlega mikil skemmtun í boði þegar Valur og FH áttust við í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld og tóku heimakonur forystuna snemma leiks á Hlíðarenda.

Elín Metta Jensen átti fast skot snemma leiks sem Macy Elizabeth Enneking, nýr markvörður FH, missti í netið. Hún virtist ætla að handsama boltann með því að grípa hann en það tókst ekki og gaf hún opnunarmark leiksins.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir var þó eldfljót að svara fyrir gestina úr Hafnarfirði. Hún skoraði eftir langa sendingu upp völlinn sem fór yfir vörn Vals. Staðan var því orðin 1-1 eftir tæpar fjórar mínútur.

Bæði lið fengu færi til að taka forystuna áður en Maya Lauren Hansen setti boltann í netið á 29. mínútu þegar hún fylgdi marktilraun frá Kötlu Maríu Þórðardóttur eftir með marki af stuttu færi eftir hornspyrnu. Katla María skallaði í slána og vann Maya svo næsta skallabolta til að skora sláin inn.

FH varð sterkari aðilinn því meira sem leið á hálfleikinn og var staðan 1-2 fyrir Hafnfirðinga í leikhlé. Heimakonur í liði Vals gerðu hvorki meira né minna en þrefalda skiptingu í leikhlé og mættu grimmar út í seinni hálfleikinn en tókst ekki að skora þrátt fyrir góðar tilraunir á upphafsmínútunum.

Valskonur voru talsvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik en þær fundu ekki leið framhjá Macy Enneking í marki FH-inga. FH fékk einnig góð færi úr skyndisóknum en næsta mark leiksins kom á lokakaflanum þegar Val tókst loks að jafna. Í þetta skiptið skoraði Elísa Viðarsdóttir eftir önnur mistök hjá Macy.

Fjörið hélt áfram á lokakaflanum, FH var hættulegri aðilinn en hvorugu liði tókst að skora svo grípa þurfti til framlengingar. Maya fékk dauðafæri í framlengingunni en nýtti það ekki. Liðin skiptust svo á að sækja en boltinn rataði ekki í netið. Þegar leikurinn stefndi í framlengingu leit sigurmarkið loks dagsins ljós.

Margrét Brynja Kristinsdóttir gerði vel að skora eftir hárnákvæma fyrirgjöf frá Thelmu Karen Pálmadóttur. Margrét skoraði á 119. mínútu svo lokatölur urðu 2-3.

FH spilar annað hvort við Breiðablik eða ÍBV í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.
Athugasemdir
banner
banner