Það var keppt í U14 og U16 aldursflokkum á Rey Cup í ár og stóðu Þróttur R. og Valur uppi sem sigurvegarar í strákaflokki.
Hjá eldri strákunum sigraði Þróttur eftir að hafa átt fullkomið mót. Heimamenn lentu aldrei í erfiðleikum og sigruðu alla leiki sína á mótinu með tveimur mörkum eða meira.
Þróttur sigraði 3-1 gegn Njarðvík í riðlinum og svo aftur 3-1 gegn Seattle Crossfire í undanúrslitum, en úrslitaleikurinn vannst 4-1 gegn strákunum frá Austurlandi. Þægilegt mót fyrir Þrótt sem mætti varla mótspyrnu.
Lestu um úrslitaleikinn: Þróttur 4 - 1 Austurland
Í U14 flokki voru það Valsarar sem rúlluðu upp mótinu. Þeir enduðu riðlakeppnina með 21-1 í markatölu og sigruðu svo fyrstu tvo leikina í útsláttarkeppninni með sex marka mun.
Þeir mættu Selfossi í úrslitaleik en Selfyssingar höfðu einnig farið auðveldlega í gegnum mótið fram að þessum tímapunkti og voru með 23-1 í markatölu þegar í úrslitaleikinn var komið.
Þar áttu þeir þó aldrei möguleika gegn ógnarsterkum Valsörum sem unnu 4-0 með tveimur mörkum í hvorum hálfleik.
Valur endaði mótið með 38-2 í markatölu í U14 strákaflokki. Ekkert lið átti séns.
Lestu um úrslitaleikinn: Valur 4 - 0 Selfoss
Athugasemdir