
'Samtalið var þannig að framundan væri bikarúrslitaleikur, liðið á flottum stað í deildinni, en það þurfi að bæta aðeins í þetta og þá gæti þetta orðið frábært tímabil fyrir Vestra'

'Vestri hefur samband og núna rétt fyrir helgi heyrði ég í Samma og Davíð, mér leist hrikalega vel á verkefnið, varð mjög spenntur og þetta gerðist rosalega hratt.'

'Þetta er það skemmtilega við fótboltann, það getur allt gerst, það kemur svona tækifæri og maður stekkur á það. Þetta er algjört ævintýri, prófa að búa hérna og spila á Ísafirð'

' Ég ber mikla virðingu fyrir honum, hann gerði helling fyrir mig, frábær þjálfari og ég á honum mikið að þakka'
„Þetta gerðist hratt, ég tók bara takkaskó og legghlífar með mér, það var nóg til að byrja með. Svo verður bara farið til Köben og náð í allt dótið," segir Ágúst Eðvald Hlynsson, nýr leikmaður Vestra, við Fótbolta.net.
Hann var kynntur sem nýr leikmaður Vestra á laugardag og skoraði svo í sigri á ÍBV á sunnudag. Hann var fenginn frá danska félaginu AB og ræddi um félagaskiptin og ýmislegt annað.
Hann var kynntur sem nýr leikmaður Vestra á laugardag og skoraði svo í sigri á ÍBV á sunnudag. Hann var fenginn frá danska félaginu AB og ræddi um félagaskiptin og ýmislegt annað.
Í annað sinn á Ísafirði
„Ég bý á Bolungarvík, það er stutt að fara á milli, fínt að búa þar. Ég bý í sömu byggingu og styrktarþjálfarinn, sjúkraþjálfarinn og Guy Smit. Það er bara gaman að prófa að búa á Bolungarvík. Þetta er það skemmtilega við fótboltann, það getur allt gerst, það kemur svona tækifæri og maður stekkur á það. Þetta er algjört ævintýri, prófa að búa hérna og spila á Ísafirði," segir Gústi.
„Ég held þetta sé bara í annað skiptið sem ég til Ísafjarðar og í fyrsta skiptið sem ég hef komið til Bolungarvíkur. Næstu dagar fara í að kynnast umhverfinu. Pabbi var að þjálfa Magna Grenivík tímabilið 2009, voru að spila gegn BÍ/Bolungarvík, ég fór bara með í ferðina vestur. Það var í eina skiptið sem ég hafði komið."
Var með ákvæði um að geta farið til Íslands
Hvernig kom það til að Gústi fór í Vestra?
„Ég var á undirbúningstímabilinu með AB, samningurinn minn var þannig settur upp að það var gluggi núna í júlí að ég gæti farið í íslenskt félag, eini glugginn í samningnum þar sem þessi möguleiki var í boði án þess að AB gæti komið í veg fyrir það. Það spyrst út, Vestri hefur samband og núna rétt fyrir helgi heyrði ég í Samma (Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs) og Davíð (Smára Lamude, þjálfara Vestra), mér leist hrikalega vel á verkefnið, varð mjög spenntur og þetta gerðist rosalega hratt. Daginn eftir var ég mættur til Ísafjarðar, tek æfingu og var svo mættur í treyjuna gegn ÍBV, við vinnum og ég skora. Þetta gerðist virkilega hratt en hefur verið virkilega skemmtilegt til þessa."
„Vestri gerði allt til þess að fá mig, vildu klára þetta sem allra fyrst sem mér fannst frábært. Ég náði að mæta á æfingu með liðinu og svo var strax leikur."
„Þetta er mín deild"
Ákvæðið var í samningnum, var Gústi farinn að hugsa til Íslands?
„Ég var ekkert að spá neitt rosalega í þessu fyrr en Vestri heyrir í mér. Ég á spjall við bæði Samma og Davíð og varð mjög spenntur. Ég þurfti að hugsa hratt, Vestri er að berjast um topp sex og svo er bikarúrslitaleikur framundan. Ég hugsaði að þetta gæti bara steinlegið, virkað virkilega vel bæði fyrir mig og Vestra. Ég tók ákvörðun að keyra á þetta og sé ekki eftir því."
„En ég skil alveg AB, þetta kom þeim örugglega mjög mikið á óvart, en svona er bara fótboltinn, ég var mjög spenntur fyrir þessu og langaði að kýla á þetta. Þetta er mín deild, ég hef horft á deildina síðasta eina og hálfa árið frá Köben, það er mjög gaman að fylgjast með henni og það kom góð tilhugsun að fá að mæta aftur í hana. Á þessu eina og hálfa ári í AB, eitt ár með Jóa Kalla, ég hef bætt minn leik og var mjög peppaður að mæta í Bestu deildina og sýna mig aftur."
„Jói skildi alveg mína ákvörðun, þannig þetta endaði allt í góðu. Ég ber mikla virðingu fyrir honum, hann gerði helling fyrir mig, frábær þjálfari og ég á honum mikið að þakka."
Gústi segir að fleiri íslensk félög hafi sýnt sér áhuga „en það var það mikill áhugi frá Vestra að fá mig, fann að þeir vildu virkilega mikið fá mig. Ég átti virkilega gott spjall við Davíð og Samma, var þvílíkt peppaður að fara vinna fyrir þá og þurfti því ekki að hugsa mig mikið um."
„Undirbúningstímabilið var eiginlega að klárast, ég átti tvö ár eftir af samningnum mínum, búinn að vera í eitt og hálft ár. Það var búið að ganga þokkalega vel og ég var alveg tilbúinn að taka annað ár, markmiðið var alltaf að hjálpa liðinu að fara upp um deild. Við vorum ekkert svo langt frá því. Liðið ætlaði sér að fara upp á síðasta tímabili, vorum með virkilega gott lið. Það hefði verið geggjað að fara upp með AB á næsta tímabili, en ég kýldi bara á það að fara í Vestra."
Frábær byrjun
Gústi kom beint inn í byrjunarliðið gegn ÍBV. Kom það á óvart?
„Nei, kom mér þannig séð ekkert á óvart, síðustu leikir í deildinni höfðu verið mjög tæpir, úrslitin ekki dottið Vestramegin. Það vantaði smá ferskleika fram á við, ég skildi að Davíð vildi fá smá ferskleika."
„Þetta var rosalega gaman, fyrstu 30-35 mínúturnar fór smá í að finna taktinn við leikmennina í liðinu, maður þarf tíma í að kynnast samherjunum, hvað þeir eru að hugsa. Ég var smá týndur til að byrja með, en með hverri mínútunni fannst mér ég vera betur og betur að finna mig. Ég fann taktinn koma hægt og rólega og skoraði svo markið. Ég er mjög ánægður þegar ég horfi til baka á leikinn."
„Ég upplifi markið þannig að ég fæ boltann, búinn að fá tvær svipaðar stöður þar sem ég tók ekki alveg rétta ákvörðun. Á þessu augnabliki hafði ég trú á mínum hæfileikum og keyrði á þetta, sá að ég gat gefið einn, tvo á Diego (Montiel) - búinn að kynnast honum aðeins á einum degi og vissi að hann væri frábær fótboltamaður - var svo mættur inn í teig, tek snertingu og hamra á markið. Geggjað að sjá boltann í netinu. Ég bara keyrði á þetta. Frábær byrjun."
Vestri er fimmta liðið sem hann spilar með á Íslandi. Hann er uppalinn hjá Þór og Breiðabliki og hefur leikið með Breiðabliki, Víkingi, FH og Val í meistaraflokki. Erlendis hefur hann verið hjá Norwich, Bröndby, Horsens og AB.
„Tækifæri til að taka þátt í einhverju sem hefur ekki verið gert áður"
Hvernig líst þér á framhaldið, hvernig var söluræðan hjá Samma og Davíð? Er stefnan að enda í efri sex og að vinna bikarúrslitaleikinn?
„Samtalið var þannig að framundan væri bikarúrslitaleikur, liðið á flottum stað í deildinni, en það þurfi að bæta aðeins í þetta og þá gæti þetta orðið frábært tímabil fyrir Vestra. Það sé tækifæri til að taka þátt í einhverju sem hefur ekki verið gert áður hérna, hvort sem það sé að vinna bikarinn eða enda í topp sex, bæði yrði sögulegur árangur fyrir klúbbinn. Tækifærið á að taka þátt í að gera eitthvað í fyrsta skiptið er alltaf heillandi, svipað og þegar maður var í Breiðabliki og við fórum inn í Evrópukeppni, það er sérstakt. Þegar ég fékk spurninguna hvort ég væri klár í þetta varð ég mjög spenntur og lét vaða á það."
Rosalega auðvelt að koma inn í hópinn
Gústi hefur fylgst vel með deildinni. Það hefur verið talað um að Vestra vanti sköpunarmátt eftir að Daði Berg Jónsson fór aftur í Víking. Finnur hann fyrir ábyrgð að fylla í það skarð?
„Ég hef fylgst vel með Vestraliðinu og þeir hafa staðið sig þvílíkt vel. Það er erfitt og hefur verið erfitt að spila við Vestra. Ég sé mig bara sem mjög flotta viðbót við liðið. Það er ætlast til þess af mér að gera eitthvað extra fram á við. Það hefur ekkert vantað upp á varnarleikinn. Liðið er frábært í því að verjast og allir berjast fyrir liðið, maður sér strax að það er frábær liðsheild í liðinu, það er gaman að sjá hversu sterk liðsheildin hérna er. Það var virkilega vel tekið á móti manni. Ég þekkti ekki mikið af leikmönnunum, en það var strax eins og maður hefði verið hérna aðeins lengur en í einn dag, rosalega auðvelt að komast inn í hópinn. Fyrir nýja leikmenn að fá svona móttökur frá bæði liðsfélögum og öllum i kring er bara frábært."
„Ég á að koma inn í liðið og hjálpa liðinu með minni hlaupagetu og vinnslu. Það er algjör bónus svo að geta skorað svona mörk."
„Geggjað að vera í þannig liði"
Hjálpar það þér þegar þú tekur ákvörðunina að það gekk mjög vel hjá Daða og Benedikt Warén á undan honum?
„Þetta eru strákar sem hafa spilað mjög vel hérna, en ég reyndar pældi ekkert mikið í því. Ég sá þetta bara sem möguleika sem gæti hentað mér mjög vel sem leikmanni, lið sem er með sterka liðsheild og vinnur fyrir hvorn annan. Það er fagnað öllum tæklingum, öllum litlu sigrunum, geggjað að vera í þannig liði. Ég er búinn að vera hér í stuttan tíma, en finn að þetta geti verið mjög gott skref fyrir mig, tækifæri til að gera eitthvað sérstakt hérna á Ísafirði."
Eru í topp sex
Vestri er sem stendur í 6. sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan 7. sætinu. Er markmiðið að enda í topp sex?
„Ef ég horfi fyrir mig þá er leikur gegn Aftureldingu á miðvikudag í næstu viku. Ef við vinnum þann leik þá erum við í virkilega flottum málum í topp sex. Þetta er bara gamla klisjan, förum í hvern leik og reynum að sækja þrjú stig. Ef það koma góð úrslit þá verðum við í topp sex. Ég hugsa ekki svo langt, eins og staðan er í dag erum við í topp sex og það eru sex leikir eftir fram að skiptingu," segir Gústi.
Eftir rúmar þrjár vikur er svo bikarúrslitaleikurinn gegn Val en Gústi þekkir það vel að verða bikarmeistari, vann titilinn með Víkingi árið 2019.
Athugasemdir