
Þremur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í Lengjudeild karla þar sem Njarðvík vann sannfærandi sigur á HK í toppbaráttunni.
Njarðvík 3 - 0 HK
1-0 Dominik Radic ('18)
2-0 Arnleifur Hjörleifsson ('53)
3-0 Oumar Diouck ('81)
Rautt spjald: Símon Logi Thasaphong, Njarðvík ('92)
Lestu um leikinn: Njarðvík 3 - 0 HK
Dominik Radic kom heimamönnum í Njarðvík yfir snemma leiks eftir að gestirnir úr Kópavogi höfðu virkað sem hættulegri aðilinn á fyrsta stundarfjórðunginum. Boltinn féll til Dominik eftir aukaspyrnu og skoraði hann af stuttu færi.
Njarðvíkingar náðu sífellt betri tökum á leiknum og tvöfaldaði Arnleifur Hjörleifsson forystuna í upphafi síðari hálfleiks. Aftur kom markið gegn gangi leiksins, skömmu eftir að Aron Snær Friðriksson hafði varið mjög vel í tvígang. Arnleifur skoraði glæsimark eftir stutta hornspyrnu og var staðan orðin 2-0.
Aron Snær átti mjög góðan leik og hélt áfram að stöðva allar hættur gestanna. Oumar Diouck kláraði leikinn fyrir Njarðvík á 81. mínútu eftir langt innkast. Lokatölur 3-0 í þessum toppbaráttuslag. Símon Logi Thasaphong sem kom inn af bekknum hjá Njarðvík fékk beint rautt spjald í uppbótartíma, fyrir að fara í grófa og óþarfa tæklingu hátt uppi á vellinum.
Njarðvík fer á topp deildarinnar með þessum sigri. Þar er liðið með 31 stig eftir 15 umferðir - tveimur stigum meira heldur en ÍR sem á leik til góða.
HK dettur hins vegar niður um tvö sæti á þéttri stöðutöflunni og situr núna í fimmta sæti.
Þróttur R. 2 - 1 Fylkir
1-0 Kári Kristjánsson ('35)
1-1 Ásgeir Eyþórsson ('65)
2-1 Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson ('69)
Rautt spjald: Ragnar Bragi Sveinsson, Fylkir ('93)
Lestu um leikinn: Þróttur 2 - 1 Fylkir
Þróttur R. klifrar uppfyrir HK og í þriðja sæti eftir sigur í Reykjavíkurslag gegn Fylki. Leikið var í Laugardalnum og byrjuðu gestirnir úr Árbænum leikinn talsvert betur en tókst þó ekki að taka forystuna.
Þróttarar unnu sig inn í leikinn og tóku forystuna á 35. mínútu þegar Kári Kristjánsson átti gott skot utan teigs og skoraði eftir mistök í varnarleik Fylkismanna. Tumi Fannar Gunnarsson gaf boltann frá sér á hættulegum stað.
Þróttur leiddi 1-0 í leikhlé og byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Þeim tókst þó ekki að tvöfalda forystuna en fengu þess í stað mark í andlitið eftir klaufagang í vörninni. Ásgeir Eyþórsson gleymdist einn og óvaldaður í vítateignum eftir hornspyrnu og skoraði þægilegt mark af stuttu færi.
Gleði Árbæinga var þó ekki langlíf því Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson tók forystuna á ný fyrir heimamenn skömmu síðar. Aftur kom mark eftir vandræðagang í varnarleiknum. Í þetta sinn gerði Nikulás Val Gunnarsson, sem var nýlega kominn inn af bekknum, afar slæm mistök. Hann ætlaði að senda boltann til baka en gaf þess í stað beint á Villa Kaldal sem kláraði með marki.
Fylkir fékk dauðafæri til að jafna metin en tókst ekki að nýta það svo lokatölur urðu 2-1 fyrir Þrótt.
Eins og hefur komið fram er Þróttur í þriðja sæti eftir þennan sigur á meðan Fylkir er enn í fallbaráttunni. Árbæingar eiga 11 stig eftir 14 umferðir og eru einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.
Leiknir R. 0 - 2 Keflavík
0-1 Kári Sigfússon ('39)
0-2 Frans Elvarsson ('67)
Lestu um leikinn: Leiknir 0 - 2 Keflavík
Að lokum mættust Leiknir R. og Keflavík í Breiðholtinu og var staðan markalaus þar til á 39. mínútu þegar Kári Sigfússon skoraði auðvelt mark eftir frábæran undirbúning frá Axel Inga Jóhannessyni.
Keflavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og verðskuldaði að fara inn í leikhléð með forystu. Frans Elvarsson tvöfaldaði þá forystu í síðari hálfleik með skalla eftir flotta aukaspyrnu frá Muhamed Alghoul.
Leiknismönnum tókst ekki að skapa góð færi til að minnka muninn svo lokatölur urðu 0-2 fyrir Keflavík. Sannfærandi sigur hjá gestunum.
Keflavík er áfram í sjötta sæti deildarinnar, aðeins sex stigum frá toppsætinu.
Leiknir vermir botnsætið, með 10 stig eftir 15 umferðir. Breiðhyltingar eru einu stigi frá öruggu sæti.
Athugasemdir