Manchester City hafnaði 25 milljón punda tilboði frá Nottingham Forest fyrir sóknartengiliðinn efnilega James McAtee.
Sky Sports greinir frá þessu en búast má við að Forest leggi fram endurbætt tilboð í leikmanninn. Borussia Dortmund, RB Leipzig, Stuttgart og Eintracht Frankfurt eru öll sögð áhugasöm ásamt félögum úr ensku úrvalsdeildinni, en Man City er talið vilja fá 35 milljónir punda fyrir.
McAtee, sem verður 23 ára í október, kom við sögu í 27 leikjum með City á síðustu leiktíð og skoraði 7 mörk. Hann er ósáttur með lítinn spiltíma hjá stórveldinu og ætlar því ekki að skrifa undir nýjan samning. Hann vill vera seldur sem fyrst.
Hann var algjör lykilmaður í U21 landsliði Englands og bar fyrirliðabandið á EM í sumar þegar England stóð uppi sem sigurvegari.
McAtee er aðeins með eitt ár eftir af samningi og bendir allt til þess að City neyðist til að selja hann í sumar, ef félagið vill ekki missa hann á frjálsri sölu að ári liðnu.
Þeir eru nokkrir í leikmannahópi City sem geta spilað sömu stöðu og McAtee. Þar má helst nefna Rayan Cherki, Phil Foden og fyrirliðann Bernardo Silva.
Þetta eru þó allt afar fjölhæfir leikmenn sem geta spilað meira en eina stöðu, líkt og McAtee sjálfur.
Athugasemdir