Breiðablik var fyrr í vetur í leit að miðverði. Félagið verður án Damirs Muminovic, fyrri hluta mótsins hið minnsta, og buðu Blikar m.a. í Ívar Örn Árnason hjá KA, en fengu nei frá Akureyringum.
Blikar eru ekki í „virkri leit" að miðverði sem stendur. Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, í dag.
Blikar eru ekki í „virkri leit" að miðverði sem stendur. Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, í dag.
Hvernig er staðan með miðvarðarleit, er eitthvað í gangi?
„Við erum ekki aktíft að leita, en það er ekkert leyndarmál að við vorum að skoða hafsenta og reyndum að fá hafsenta. Dýnamíkin breyttist svolítið þegar Anton Logi kom. Ef það býðst leikmaður sem styrkir okkur, þá klárlega munum við skoða það vel. En við erum mjög ánægðir með hópinn eins og hann er akkúrat núna."
Ertu þá að sjá fyrir þér að Arnór Gauti Jónsson sé núna orðinn kostur í hafsentinn?
„Arnór Gauti var eiginlega eina sexan í hópnum. Þeir hafa báðir, og geta báðir, spilað hafsent og sexu. Það breytir töluvert miklu að fá annan (Anton Loga) inn í hópinn. Gauti hefur spilað hafsent í síðustu leikjum og gert það virkilega vel. Við erum líka með Ásgeir Helga (Orrason) og Daniel (Obbekjær) sem kosti með Viktori (Erni Margeirssyni). Breiddin er bara mikil. Þetta eru allt góðir leikmenn, með sinn styrkleika."
Ertu að sjá fyrir þér að Anton Logi geti spilað eitthvað í hafsent?
„Ég sé það alltaf fyrir mér, en hann er ekki fenginn sem slíkur, alls ekki. Hann hefur eiginleika sem hafsent sem fáir hafa. Frammistaða hans sem hafsent 2023 týnist kannski mikið í óreiðunni sem þessi tími var í kringum Evrópuleikina og allt það. Hann spilaði leiki í hafsent, t.d. á móti KA fyrir norðan þar sem hann var ógeðslega góður. Hann er ekki fenginn sem hafsent en getur spilað þar."
Áttu von á einhverri breytingu á hópnum fyrir fyrsta leik í deild?
„Ég ætla ekki að útiloka neitt, en það kæmi mér á óvart ef það myndi eitthvað gerast."
Er einhver önnur staða, fyrir utan hafsent, þar sem þú tækir inn leikmann ef sá rétti kæmi upp?
„Við erum ekki að skoða neina stöðu. Ef það býðst leikmaður sem passar inn í það sem við erum að gera, fyrst og fremst hugarfarslega og auðvitað líka á vellinum; er bara virkilega sterkur leikmaður sem gerir liðið betra, þá munum við klárlega skoða það alvarlega," segir Dóri.
Framundan hjá Blikum er æfingaleikur gegn FH á morgun, svo er leikur gegn KA í Meistarakeppni KSÍ og svo hefst Besta deildin 5. apríl þegar Afturelding kemur í heimsókn á Kópavogsvöll.
Athugasemdir