Víkingar, sem hafa unnið alla sína leiki, fara á Akureyri á morgun
„Við erum mjög spenntir. Þegar þú ert á góðu skriði þá geturðu ekki beðið eftir því að næsti leikur komi. Mér finnst eins og það sé hæfileg blanda af spennu og tilhlökkun í hópnum," segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Á morgun er stórleikur á Akureyri þegar Víkingar, sem hafa unnið alla leiki sína í Bestu deildinni til þessa, heimsækja KA. Þessum leik var flýtt út af þátttöku liðanna í Evrópukeppni.
Á morgun er stórleikur á Akureyri þegar Víkingar, sem hafa unnið alla leiki sína í Bestu deildinni til þessa, heimsækja KA. Þessum leik var flýtt út af þátttöku liðanna í Evrópukeppni.
„Þessir leikir á móti KA hafa alltaf verið mjög erfiðir. Þeir hafa lent okkar megin oftar en þeirra megin síðustu ár en þetta hafa verið gríðarlega erfiðir leikir. Þeir eru með flott lið, eru líkamlega sterkir og vel þéttir. Það er erfitt að vinna þá. Við höfum alltaf þurft að hafa verulega fyrir því," segir Arnar.
Víkingur vann dramatískan sigur í Fossvogi
Þessi lið mættust fyrir tæpum mánuði síðan í Fossvoginum og þá vann Víkingur dramatískan sigur, 1-0. Gunnar Vatnhamar skoraði sigurmarkið seint.
„Þetta var mikil taktísk skák. Menn þurftu að vera fljótir að læra á meðan leiknum stóð hvað þurfti að gera til að vinna leikinn. Þetta var erfitt," segir Arnar um þann leik en er hans teymi mikið að skoða fyrri leik liðanna í undirbúningnum fyrir leikinn á morgun?
„Já, auðvitað gerir maður það. Hann er ekkert á allan sólarhringinn en við skoðum hann. KA er lið sem spilar sama kerfið með breyttum áherslum á milli leikja, en þetta er sama kerfið. Svo er maður að spá og spekúlera í það hversu mikil áhrif bannið hjá Ívari (Erni Árnasyni) mun hafa á þeirra leik. Hver dettur í vörnina? Og svo framvegis. Maður er að spá og spekúlera. Það er stutt síðan við spiluðum við þá síðast en mögulega koma þeir eitthvað á óvart líka. Spilamennskan hefur ekki verið alslæm hjá þeim en þeir eru ekki búnir að safna mörgum stigum, og um það snýst þessi blessaði leikur okkar. Mögulega hrista þeir eitthvað upp í þessu."
KA stefndi á Íslandsmeistaratitilinn fyrir mót en liðið hefur hikstað og er í sjötta sæti með ellefu stig, 13 stigum á eftir Víkingum. Leikurinn á morgun er leikur sem þeir gulklæddu frá Akureyri verða að vinna ef þeir ætla sér að gera einhverjar vonir um einhvers konar baráttu á toppnum.
„Þeir virka alltaf sem vel hungrað lið. Hallgrímur (Jónasson), þeirra þjálfari, virkar sem karakter sem sættir sig ekki við neina meðalmennsku," segir Arnar. „Hann gerði það ekki sem leikmaður og pottþétt ekki sem þjálfari. Mögulega er þetta leikur sem þér er meira illa við að ná ekki í góð úrslit úr, því annars er þetta kannski orðinn of mikill munur til að vinna upp þegar líður á sumarið. Við erum ekki bara fyrir framan þá, það eru líka önnur góð lið. Þegar þú ert kominn 12-15 stigum á eftir, þá þarftu að treysta á að ansi mikið gerist svo þú náir toppsætinu sem var það sem þeir stefndu á í upphafi móts."
Staðan á hópnum?
Því næst var Arnar spurður út í stöðuna á leikmannahóp sínum fyrir leikinn á morgun. Karl Friðleifur Gunnarsson verður í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald gegn HK í síðustu umferð og Viktor Örlygur Andrason er á meiðslalistanum eftir að hafa farið meiddur út af í síðasta leik.
„Kalli er í leikbanni og Viktor (Örlygur Andrason) er frá. Það var ekki eins alvarlegt og við héldum með Viktor en hann nær ekki leiknum á morgun," segir Arnar.
„Gísli Gotti er svo að byrja sína endurhæfingu. Kyle er með sín meiðsli. Við erum vel mannaðir og á æfingunni fyrr í dag litum við mjög vel út; við erum virkilega hungraðir og skarpir. Við erum að vonast til að Viktor nái Valsleiknum á mánudag, en ef ekki þá fáum við hann pottþétt til baka á föstudeginum."
Davíð Örn Atlason mun koma inn í staðinn fyrir Karl Friðleif á morgun. „Það er að sjálfsögðu högg að missa Kalla en við búum við þann lúxus að vera með tvo mjög öfluga hægri bakverði, Kalla og Davíð sem hafa báðir spilað virkilega vel. Við getum treyst þeim báðum. Þeirra samkeppni er búin að ýta þeim báðum upp á næsta stig. Davíð kemur inn og leysir þetta með sóma."
Það er ekki amalegt að geta sett Davíð Örn inn í liðið þegar Karl Friðleifur er fjarri góðu gamni.
„Ég held að ég sofi alveg ágætlega í kvöld," sagði Arnar léttur um þá breytingu.
Gæði umfram magn
Fyrir tímabil var umræða um það að Víkingar væru ekki að styrkja leikmannahóp sinn nægilega mikið, hópurinn væri ekki nægilega breiður. En Arnar kann vel við það að vinna með minni og þéttari hóp; og árangurinn talar sínu máli.
„Þú hefur alltaf áhyggjur sem þjálfari af þessum blessuðu meiðslum, sérstaklega þegar þú ert hjá liði sem er að reyna að standa sig vel í öllum keppnum og í Evrópukeppni. Þá þarftu að vera heppinn með meiðsli, það er ekki flóknara en það," segir Arnar en leikjaálagið verður meira á næstunni þegar flautað verður til leiks í Evrópukeppninni.
„Þetta er líka bara gæði frekar en magn. Þú getur sagst vera með 30 manns á æfingum en svo ertu kannski með 16 manns sem eru að fara að gera eitthvað fyrir þig. Ef þú ert heppinn með meiðsli þá viltu vera með minni hóp og fleiri gæðaleikmenn, þannig að þú sért með 18-20 manna kjarna og það skiptir eiginlega engu hver er að spila - það geta allir dottið inn. Við reyndum það í fyrra og það gekk mjög vel þó það hefði getað gengið betur á einhverjum vígstöðvum."
„Ég var einmitt að sýna strákunum um daginn að frá 21. júní til 22. ágúst í fyrra - sem eru tveir mánuðir - þá spiluðum við 17 leiki. Það er leikur á innan við fjögurra daga fresti. Núna er að koma törn sem við erum vanir, höfum reynsluna frá því í fyrra, og við ætlum að nýta okkur það. Svo kemur smá pása í júní og aftur törn eftir það. Þessi reynsla frá því í fyrra hefur kennt okkur eitthvað. Þetta er mjög gaman og áhugaverðar pælingar þegar svona mikið leikjaálag er, því þú vilt ekki fara í einhverjar allsherjar breytingar en á einhverjum tímapunkti þarftu að rótera mönnum til og frá."
Þar sem hópurinn hjá Víkingum er ekki sá stærsti, þá er ekkert sérlega langt í það að leikmenn úr 2. flokki komi inn í hópinn og fái góða reynslu.
„Það er jákvætt að yngri leikmenn fái líka tækifæri að vera í hópnum, það styrkir þá og eflir. Það hvetur þá til frekari dáða. Vonandi hugsa þessir ungu leikmenn að þeir séu að koma upp í góðu liði á Íslandi og vilji vera hluti af því. Við erum að fá mikil gæði frá ungu leikmönnunum okkar í dag; það eru mikil gæði í þessum ungu strákum sem getur nýst okkur vel í framtíðinni. Svo er 2. flokkurinn okkar að spila öflugan og skemmtilegan fótbolta, hann er mjög vel þjálfaður. Það er virkilega ánægjulegt að fylgjast með þeim," segir Arnar.
Þetta er tilfinning sem þú verður að bera virðingu fyrir
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með sigurgöngu Víkinga; átta deildarleikir og átta sigrar, 24 stig. Það er góður andi í hópnum en menn eru ekki mikið að velta sér upp úr því hvenær sigurgangan muni enda.
„Ég held að það sé extra krydd þegar það gengur svona vel. Þá er hausinn á mönnum léttari og þú ert með færri kíló á skrokknum, minni byrði. Þér líður almennt betur og það er allt miklu skemmtilegra. Þetta er tilfinning sem þú verður að bera virðingu fyrir og þú átt ekki að gefa hana frá þér auðveldlega því hún er fljót að fara í fótbolta," segir Arnar.
„Ég get sagt þér það að það er enginn að spá í því hvenær sigurgangan muni enda. Það er bara næsti leikur og áfram gakk. Eina sem ég hef áhyggjur af er hvort menn fái nokkuð sjokk þegar þeir lenda undir. Það hefur ekki gerst í sumar; hvernig bregst liðið við því? Fara menn í algjört sjokk? Menn verða að takast á við það. Það er erfitt að alhæfa eitthvað í þeim efnum.. Þó það sé klisja, þá er það bara næsti leikur. Við tókum þá ákvörðun."
„Það finnst öllum gaman þegar vel gengur. En eins og ég sagði áðan, þá er mjög mikilvægt að bera virðingu fyrir þessari tilfinningu sem við erum með núna. Bera virðingu fyrir því af hverju þú ert með þessa tilfinningu og hvað þú þarft að leggja á þig til að ná þessari tilfinningu fram. Þú þarft að vera tilbúinn að berjast fyrir henni og ekki henda henni það auðveldlega. Hún er svo fljót að fara í þessum leik. Þetta er ótrúlegur leikur upp á það að gera. Það er stutt á milli í þessu og þú ert fljótur að missa þetta í vitleysu ef einbeitingin fer eitthvert annað."
Gefur ekki neitt ef það verður engin dolla í lokin
Því næst var Arnar spurður hvort hann sæi eitthvað eitt sérstakt sem liðið hefur bætt sig í frá síðasta tímabili þegar annað sætið var niðurstaðan.
„Klárlega, það er miklu meiri stjórn hjá okkur á öllum aðstæðum í leikjum. Mér finnst við samt eiga töluvert inni ennþá," segir þjálfari Víkinga. „Það er mikið 'trend' í öllum þessum leikjum hvað fyrstu 60-70 mínúturnar eru flottar af okkar hálfu. Svo finnst mér við fullmikið vera búnir að sleppa liðum frá okkur síðustu 20. Mér finnst við eiga það inni. Ég ætla ekki að segja að við séum full værukærir en við eigum inni 90 mínútna frammistöðu. Hugsunarhátturinn á líka að vera þannig að þú átt aldrei að vera sáttur. Þú átt alltaf að leita að leiðum til að bæta þig og gera betur."
„Við erum búnir að vinna mikið í því í vetur að stjórna aðstæðum. Heimsfótboltinn er farinn að líta öðruvísi út en hann gerði á sama tíma í fyrra, hvernig hann er að þróast, hvaða lið eru að gera góða hluti og hvernig þau eru að spila. Við höfum kosið þá leið að leitast eftir stjórn á leikjum - hvort sem það er með eða án bolta. En þá er hin leiðin að finna leiðir gegn því sem við erum að gera. Á milli leikja er maður stanslaust að hugsa hvernig maður getur bætt sig, í hvaða smáatriðum þú getur unnið í og þess háttar. Allir leikir í þessari deild eru drulluerfiðir. Það eru allir þjálfarar búnir að bæta sig í öllum þáttum leiksins og það er erfitt að vinna leiki í þessari deild."
„Ég held að það sé mjög merkilegt að Breiðablik hafi unnið fyrstu átta leikina í fyrra og það er ekki minna afrek hjá okkur í ár. Það er mikil samkeppni og að ná að tengja saman svona marga sigra í röð, auðvitað eru menn stoltir af því. En það gefur ekki neitt ef það verður engin dolla í lokin. Þá munu voðalega fáir muna eftir þessu. Það er bara þannig," sagði Arnar að lokum.
Sjá einnig:
Haddi: Hverslags hugarfar hefði það verið?
Athugasemdir