PSG íhugar að reyna við Rashford - Dewsbury-Hall orðaður við Chelsea - Archie Gray eftirsóttur
   mán 24. júní 2024 18:54
Brynjar Ingi Erluson
„Ronaldo kæmist ekki í byrjunarlið Englands“
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo
Mynd: EPA
Cristiano Ronaldo kæmist ekki í byrjunarlið enska landsliðsins undir stjórn Gareth Southgate en þetta segir Ally McCoist, fyrrum leikmaður Rangers og skoska landsliðsins, í viðtali við BoyleSports.

Ronaldo, sem er 39 ára gamall, hefur byrjað báða leiki portúgalska landsliðsins á Evrópumótinu.

Hann átti fínasta leik gegn Tékklandi og lagði síðan upp eitt mark í 3-0 sigri á Tyrklandi, sem gerði hann að stoðsendingahæsta leikmanni í sögu Evrópumótsins.

Ekki eru allir sammála um stórt hlutverk Ronaldo á mótinu en Roberto Martinez, þjálfari portúgalska landsliðsins, hefur staðið þétt við bakið á sínum manni.

McCoist, sem er einn besti leikmaður í sögu Rangers, segir að Ronaldo kæmist aldrei í byrjunarlið enska landsliðsins í dag, þó liðið hafi ekki riðið neitt sérlega feitum hesti í byrjun móts.

„Það er líklega rétt að segja það að Ronaldo gæti ekki spilað fyrir England. Fyrir fimm eða tíu árum síðan hefði hann labbað inn í liðið, þar sem þetta yrði hann og tíu aðrir, en aldurinn er farinn að segja til sín eins og með alla. Ég held að hann sé á þeim stað í dag og þess vegna tel ég að hann kæmist ekki í byrjunarlið Englands,“ sagði McCoist við BoyleSports.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner