Tveir síðustu leikir tólftu umferðar efstu deildar á Ítalíu fóru fram í kvöld þar sem lærlingar Cesc Fábregas í liði Como skoruðu fimm mörk.
Como heimsótti Torino og voru gestirnir sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Þeim tókst þó aðeins að skora eitt mark og jafnaði Nikola Vlasic metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Hinn bráðefnilegi Jayden Addai skoraði fyrsta mark Como af stuttu færi eftir frábæran undirbúning frá jafnaldra sínum Jesús Rodríguez og skoraði hann svo aftur í upphafi síðari hálfleiks. Aftur átti Rodríguez stoðsendinguna en í þetta skiptið skoraði Addai með frábæru skoti rétt utan vítateigs.
Rodríguez og Addai eru báðir fæddir 2005 alveg eins og Jacobo Ramón sem bætti þriðja markinu við með skalla í kjölfar hornspyrnu. Hin feykiöflugi Nico Paz, sem er ári eldri, setti svo fjórða markið áður en Martin Baturina kom inn af bekknum og setti fimmta og síðasta mark gestanna.
Lokatölur 1-5 fyrir Como sem er í sjötta sæti, með 21 stig eftir 12 umferðir. Torino situr eftir í neðri hlutanum með 14 stig.
Sassuolo tók svo á móti Pisa í nýliðaslag og var mikið fjör á upphafsmínútunum þar sem báðum liðum tókst að skora.
M'Bala Nzola skoraði úr vítaspyrnu áður en serbneska kempan Nemanja Matic jafnaði tveimur mínútum síðar.
Það ríkti jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en heimamenn í Sassuolo voru sterkara liðið eftir leikhlé. Þrátt fyrir yfirburði heimamanna tókst gestunum að endurheimta forystuna þegar Daninn efnilegi Henrik Meister skoraði á 81. mínútu.
Það reyndist þó ekki vera sigurmarkið þar sem Sassuolo bætti við miklum sóknarþunga og tókst að lokum jafna með marki frá norska landsliðsmanninum Kristian Thorstvedt.
Thorstvedt skoraði seint í uppbótartíma og reif sig úr treyjunni í fagnaðarlátunum. Lokatölur 2-2.
Nýliðar Sassuolo hafa verið að gera frábæra hluti í efstu deild og eru í efri hlutanum með 17 stig eftir 12 umferðir. Pisa er með 10 stig eftir jafnteflið.
Torino 1 - 5 Como
0-1 Jayden Addai ('36 )
1-1 Nikola Vlasic ('45 , víti)
1-2 Jayden Addai ('52 )
1-3 Jacobo Ramon ('72 )
1-4 Nico Paz ('78 )
1-5 Martin Baturina ('86 )
Sassuolo 2 - 2 Pisa
0-1 M'Bala Nzola ('4 , víti)
1-1 Nemanja Matic ('6 )
1-2 Henrik Meister ('81 )
2-2 Kristian Thorstvedt ('90 )
Athugasemdir




