Knattspyrnudeild Gróttu tilkynnti í dag nýjan leikmann en Tareq Shihab, fyrrum leikmaður Brighton, skrifaði undir tveggja ára samning við Lengjudeildarfélagið.
Shihab er 21 árs gamall miðjumaður sem kemur frá Hollandi, en hann fór 13 ára gamall til Brighton og spilaði þar með unglinga- og varaliði félagsins.
Hann hefur síðustu tvö tímabil spilað í ensku utandeildinni en þar áður lék hann fyrir Demon Deacons í háskólaboltanum í Bandaríkjunum.
Miðjumaðurinn á 7 leiki fyrir unglingalandslið Englands þar sem hann er með tvöfalt vegabréf en Bukayo Saka, leikmaður Arsenal, var meðal samherja hans.
Shihab hefur æft með Gróttu frá því í nóvember og hefur nú skrifað undir tveggja ára samning við félagið.
„Ég er mjög spenntur að ganga til liðs við Gróttu. Þetta er flott og metnaðarfullt félag. Ég hlakka til að flytja til Íslands og hitta strákana, og get ekki beðið eftir því að spila fyrir framan stuðningsfólkið á Vivaldi,“ sagði Shibab við undirskrift.
Stjórn Gróttu fagnar komu Shihab til félagsins.
„Við bjóðum Tareq Shihab hjartanlega velkominn í Gróttu og hlökkum til að fá hann í félagið. Tareq er leikmaður sem passar fullkomlega inn í stefnu Gróttu. Hann er harðduglegur, stefnir hátt og er tilbúinn til að leggja hart að sér. Við vonum að Gróttufólk og Seltirningar taki vel á móti honum og aðstoði hann við að aðlagast samfélaginu,“ segir í yfirlýsingu Gróttu.
Grótta hafnaði í 3. sæti Lengjudeildarinnar á síðasta tímabili með 37 stig.
Athugasemdir