
„Frammistaðan á móti Sviss var kannski ekki okkar besta en við getum tekið eitthvað jákvætt með okkur og svo höldum við bara áfram," sagði Hlín Eiríksdóttir kantmaður Íslands við Fótbolta.net en Ísland gerði markalaust jafntefli við Sviss í Þjóðadeildinni á föstudaginn.
Framundan er leikur við Frakka í Le Mans klukkan 20:10 í kvöld.
„Það er alveg viðbúið að þær frönsku verði kannski slatta með boltann. Við erum búnar að fara yfir þær og hvernig þær spila. Það er hellings pláss á móti þeim og það er okkar að nýta það sem best," sagði Hlín.
„Norska liðið stóð mjög vel í þeim og hefðu átt skilið að taka meira með sér en ekkert stig úr þeim leik. Það eru því möguleikar en það verður erfitt og við þurfum að eiga okkar besta dag."
Snýst þetta kannski svolítið um sjálfstraust, að vita að þið getið gert eitthvað á móti þeim?
„Já, algjörlega. Það er gott að sjá að það eru göt í þeirra varnarleik. Það eru risastór svæði sem geta verið opin á móti þeim og við þurfum að fara inn í þau svæði á réttum tímapunktum og nýta okkur það sem best."
Nánar er rætt við Hlín i spilaranum að ofan þar sem hún ræðir félagaskiptin óvæntu til Leicester City
Athugasemdir