Bournemouth vill 70 milljónir punda fyrir Semenyo - Mörg félög á eftir Elliott - Branthwaite framlengir við Everton
   lau 28. júní 2025 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Umboðsmaður Weah ósáttur með hegðun Juventus
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Kantmaðurinn Timothy Weah er líklega á förum frá Juventus í sumar þar sem enska úrvalsdeildarfélagið Nottingham Forest er að reyna að festa kaup á honum og liðsfélaga hans Samuel Mbangula.

Weah og Mbangula voru báðir nefndir í leikmannahóp Juventus fyrir HM félagsliða og fékk Weah að spila 45 mínútur í fimm marka sigri gegn Al-Ain í fyrstu umferð, á meðan Mbangula sat á bekknum.

Þeir sátu báðir á bekknum í sigri gegn Wydad Casablanca og voru svo ekki í leikmannahópi Juve í tapinu gegn Manchester City í lokaumferðinni.

Ástæðan fyrir þessu er tilboð frá Nottingham Forest sem bauð 23 milljónir evra í báða leikmennina saman. Juve vill fá meiri pening og eru félögin í viðræðum um kaupverð.

Það væri áhætta fyrir Juventus að nota Weah og Mbangula aftur á HM félagsliða. Ef annar hvor þeirra meiðist alvarlega mun félagið ekki geta selt hann í sumar.

Weah er þó ósáttur með hegðun Juventus í þessu máli ef marka má orð umboðsmanns hans, Badou Sambague. Honum finnst ósanngjarnt að Weah fái ekki að spila þó að kaupviðræður séu í gangi við Nottingham Forest.

„Weah er stórkostlegur leikmaður og frábær liðsfélagi. Það veldur mér miklum vonbrigðum að sjá fólk (stjórnendur Juventus) haga sér svona fyrir peninga. Það eru mikil vonbrigði að sjá hversu sjálfselskir þeir eru. Það er synd," sagði Sambague um málið.

„Meðan ég er hér þá mun enginn ráðskast með mína leikmenn, að reyna að stýra þeim til hægri og til vinstri eins og strengjabrúðu.

„Ég er þakklátur fyrir að Timo (Weah) sé með topp menntun og persónuleika til að halda sér einbeittum að starfinu sínu."


Talið er að Weah muni hafna því að ganga til liðs við Nottingham Forest.
Athugasemdir