Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   mán 25. maí 2020 09:18
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Fyrirliðabreytingar hjá helmingi liða í Pepsi Max
Bergsveinn hætti og Hans Viktor tók við fyrirliðabandi Fjölnis.
Bergsveinn hætti og Hans Viktor tók við fyrirliðabandi Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks.
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn var farið yfir þær hræringar sem hafa orðið á fyrirliðamálum í Pepsi Max-deild karla. Helmingur liða verður með nýjan fyrirliða á komandi leiktíð.

Aðeins Stjarnan á eftir að staðfesta fyrirliða fyrir tímabilið en Baldur Sigurðsson var fyrirliði í fyrra en er nú kominn í FH. Miðjumaðurinn ungi Alex Þór Hauksson var með bandið á undirbúningsmótunum áður en keppni var stöðvuð vegna kórónaveirunnar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson gerði Höskuld Gunnlaugsson að fyrirliða Breiðabliks en Gunnleifur Gunnleifsson, sem var fyrirliði, er kominn í þjálfarateymi Blika og orðinn varamarkvörður eftir komu Antons Ara Einarssonar.

Davíð Þór Viðarsson lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og er Björn Daníel Sverrisson nýr fyrirliði í Kaplakrika.

Hjá KA er Hallgrímur Jónasson orðinn aðstoðarþjálfari en hann var fyrirliði í fyrra. Almarr Ormarsson er fyrirliði hjá KA í dag. Svipað gerðist í Árbænum þar sem Ólafur Ingi Skúlason var gerður að aðstoðarþjálfara og er Ragnar Bragi Sveinsson nýr fyrirliði Fylkis.

Eins og frægt er lagði Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði Fjölnis, skóna óvænt á hilluna en Hans Viktor Guðmundsson tekur við fyrirliðabandinu í Grafarvogi.

Hjá ÍA er Arnar Már Guðjónsson enn fyrirliði en hann missti af hluta tímabilsins í fyrra vegna meiðsla og markvörðurinn Árni Snær Ólafsson bar þá bandið.

Óskar Örn Hauksson er enn fyrirliði Íslandsmeistara KR og Sölvi Geir Ottesen fyrirliði bikarmeistara Víkings.

Haukur Páll Sigurðsson er fyrirliði Vals, Leifur Andri Leifsson er fyrirliði HK og Sigurvin Reynisson er fyrirliði nýliða Gróttu. Allt óbreytt þar.

Keppni í Pepsi Max-deild karla hefst 13. júní en hér að neðan má heyra umræðu úr útvarpsþættinum um helgina.
Axlabandalið Pepsi Max og fyrirliðapælingar
Athugasemdir
banner
banner
banner