Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   lau 25. maí 2024 15:57
Ívan Guðjón Baldursson
Enski bikarinn: Man Utd vann úrslitaleikinn gegn Man City
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Man City 1 - 2 Man Utd
0-1 Alejandro Garnacho ('30)
0-2 Kobbie Mainoo ('39)
1-2 Jeremy Doku ('87)

Manchester City og Manchester United mætust í úrslitaleik enska FA bikarsins á Wembley í annað sinn á tveimur árum í dag og úr varð hörkuslagur.

Man Utd var sterkara liðið í fyrri hálfleik og tók forystuna eftir slæm varnarmistök á 30. mínútu, þegar Josko Gvardiol skallaði boltann yfir eigin markvörð og beint til Alejandro Garnacho sem skoraði í autt markið.

Kobbie Mainoo tvöfaldaði forystuna níu mínútum síðar eftir góða sókn Rauðu djöflanna en varnarleikur Man City var langt frá því að vera til fyrirmyndar. Mainoo var einn og óvaldaður í dauðafæri innan vítateigs þegar Bruno Fernandes sendi boltann á hann.

Staðan var 0-2 í leikhlé og skiptu Englandsmeistarar Man City um gír í síðari hálfleik, en þeir áttu í miklum erfiðleikum með að skora.

Varnarlína Man Utd átti góðan leik og í þau skipti sem hún var sigruð þá stóð André Onana fyrir sínu á milli stanganna, með aðstoð frá slánni sem kom í veg fyrir að fast skot Erling Haaland færi í netið.

Jeremy Doku kom inn af bekknum í hálfleik og minnkaði hann muninn fyrir City með laglegu marki eftir gott einstaklingsframtak á 87. mínútu.

Nær komust City-menn þó ekki og urðu lokatölur 1-2 fyrir Man Utd sem tókst að hefna sín eftir 2-1 tap í úrslitaleiknum í fyrra.
Athugasemdir
banner
banner