
HK og Keflavík mætast á laugardaginn í úrslitaleik Lengjudeildarinnar á Laugardalsvelli. Sigurliðið tryggir sér sæti í Bestu-deildinni á næsta tímabili. Fótbolti.net ræddi við Hermann Hreiðarsson, þjálfara HK, eftir blaðamannafund fyrir leikinn.
„Við erum á góðum stað, höfum verið að spila vel. Það er frábær orka í liðinu, rosalega jákvæð stemning í klefanum. Við erum búnir að hafa rosalega gaman af þessu, þannig að við komum vel stefndir.“
HK vann 3-0 sigur í báðum viðureignum liðanna á tímabilinu.
„Við vitum hvernig þessi deild er. Það eru allir að kroppa í alla og allir einhvern veginn. Það skemmir ekkert fyrir að hafa unnið þá en það sitja allir við sama borð á laugardaginn.“
HK liðið er verulega ungt, getur það spilað einhvern þátt á laugardaginn?
„Það er hægt að reikna það út á margan máta. En við höfum fyrst og fremst sýnt fram á í síðustu leikjum, HK-hjartað og mikið hungur. Menn eru hungraðir að fara upp í efstu deild. Þeir eru búnir að blóðgast vel og þroskast vel í sumar. Það er hungur í það að komast alla leið, ég held að það yfirstígi aldurinn.“
Þorsteinn Aron Antonsson og Bart Kooistra, leikmenn HK, hafa glímt við meiðsli síðustu daga, verða þeir klárir?
„Það eru einhverjar líkur á þeim. Það er ekkert komið neitt lokasvar á það. Það verður tekið á laugardagsmorgninum.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir