Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er frágengið að varnarmaðurinn Elfar Freyr Helgason mun ganga í raðir Vals. Aðeins á eftir að klára formsatriði í þeim efnum áður en hann verður kynntur.
Elfar Freyr, sem er 33 ára gamall, kom aðeins við sögu í fimm deildarleikjum með Breiðabliki í sumar. Þá lék hann einnig í tveimur leikjum í Mjólkurbikar karla.
Elfar var nokkuð óheppinn með meiðsli, og þá var erfitt fyrir hann að komast inn í liðið eftir að Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson mynduðu sterkasta miðvarðapar deildarinnar.
Arnar Grétarsson þekkir Elfar vel eftir að hafa þjálfað hann og spilað með honum í Breiðabliki. Þá fékk hann leikmanninn til Grikklands þegar hann var yfirmaður fótboltamála hjá AEK Aþenu þar í landi.
Arnar staðfesti áhuga Vals á Elfari í vikunni og nú ku allt vera frágengið svo hægt sé að kynna hann sem nýjan leikmann Vals.
Valur hafnaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar í sumar.
Athugasemdir