Argentínska goðsögnin Lionel Messi er enn að gera frábæra hluti þrátt fyrir hækkandi aldur.
Messi er algjör lykilmaður í sterku liði Inter Miami í MLS deildinni og er búinn að draga liðsfélagana með sér alla leið í undanúrslit umspilsins. Þar mun liðið spila við New York City FC.
Hann hefur verið gjörsamlega óstöðvandi í síðustu leikjum og þegar tölfræðin hjá Messi fyrir síðustu sjö leiki Inter er skoðuð kemur í ljós að hann tók þátt í 88% marka liðsins í síðustu sjö leikjum.
Messi er búinn að skora eða leggja upp 20 sinnum í síðustu sjö leikjum, sem er ótrúleg tölfræði fyrir hvaða fótboltamann í heimi - hvað þá einn 38 ára gamlan? Hann skoraði eitt og lagði þrjú upp í þægilegum sigri á FC Cincinnati í 8-liða úrslitum og verður áhugavert að fylgjast með honum á heimavelli gegn New York um næstu helgi.
Thomas Müller og félagar í Vancouver Whitecaps eru komnir í hinn undanúrslitaleikinn.
Til gamans má geta að með öllum þessum mörkum og stoðsendingum hefur Messi tekist að bæta heimsmet. Hann er fyrsti leikmaður sögunnar til að koma með beinum hætti að 1300 mörkum á ferli sínum. Það sem vekur enn meiri athygli er að hann gerði það í 1135 leikjum.
Messi hefur því skorað eða lagt upp meira en einu sinni á leik á rúmlega 20 ára ferli sem atvinnumaður í fótbolta.
Athugasemdir

