Tyrkneski miðjumaðurinn Hakan Calhanoglu er algjör lykilmaður í liði Inter.
Hann er ein besta vítaskyttan í Serie A deildinni en klúðraði af punktinum í 0-1 tapi í nágrannaslagnum gegn AC Milan um helgina.
Þetta var aðeins önnur spyrnan sem Calhanoglu klúðrar eftir félagaskipti sín frá Milan til Inter fyrir rúmum fjórum árum síðan. Tyrkinn hefur skorað úr 18 af 20 vítaspyrnum sem hann hefur tekið fyrir liðið.
Það vekur athygli að hitt vítaklúðrið hjá Calhanoglu var á síðustu leiktíð og kom það á nákvæmlega sama leikdegi og sömu mínútu og klúðrið um helgina.
Calhanoglu brenndi af í 1-1 jafntefli gegn Napoli 10. nóvember 2024. Liðin mættust á tólfta leikdegi deildartímabilsins og steig Calhanoglu á punktinn á 74. mínútu, alveg eins og um helgina.
Í bæði skiptin skaut Calhanoglu fast og til vinstri og í bæði skiptin varði markvörður andstæðinganna spyrnuna.
Í fyrra stóð Napoli uppi sem sigurvegari í Serie A og núna trúa hjátrúafyllstu Ítalirnir að Milan hljóti að sigra deildina komandi vor.
Athugasemdir



