Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 26. febrúar 2024 23:15
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes: Vorum fallbaráttufélag þegar ég tók við
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
David Moyes var kátur eftir langþráðan sigur West Ham United sem kom gegn Brentford fyrr í kvöld, þar sem Jarrod Bowen skoraði þrennu og var hetja heimamanna.

Moyes hefur legið undir mikilli gagnrýni að undanförnu og er hluti stuðningsmanna West Ham sem vill ekki hafa hann lengur við stjórnvölinn.

Sá hluti stuðningsmanna er ósáttur með neikvæðan leikstíl sem Moyes lætur Hamrana spila, þar sem hann leggur mikið upp úr því að verjast þétt og keyra svo upp í skyndisóknir.

„Við þurftum á þessum sigri að halda eftir ömurlegar sex vikur. Það var mjög gott að skora fjögur mörk og vinna á heimavelli," sagði Moyes að leikslokum, og hrósaði hann Lucas Paquetá í hástert eftir að Brasilíumaðurinn kom aftur úr meiðslum.

„Lucas skipti sköpum fyrir okkur en hann var alveg búinn á því eftir klukkutíma af leiknum. Hann er verulega hæfileikaríkur fótboltamaður og ótrúlega mikilvægur fyrir þetta lið."

West Ham er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur, í harðri baráttu við Brighton, Wolves, Newcastle, Chelsea og Fulham um síðasta Evrópusætið.

„Við erum ekki í slæmri stöðu á þessum tímapunkti, félögin í kringum okkur eru sterk félög með mikinn pening og mikla reynslu í efri hluta ensku deildarinnar. Það eru bara þrjú ár síðan við hættum að vera félag sem sættir sig við sæti í neðri hlutanum."

Moyes talaði einnig um gæðin sem Hamrarnir eru með í sóknarlínunni sinni, þar sem hann hefur miklar mætur á Bowen, Paquetá og Mohammed Kudus sem leiddu sóknina í kvöld.

„Ef þessir þrír leikmenn ná að smella vel saman þá erum við komnir með stórhættulega sóknarlínu. Ef Jarrod nær að skora reglulega og halda sér frá meiðslum þá mun hann komast í enska landsliðshópinn fyrir EM í Þýskalandi, það er ég viss um."

Að lokum var Moyes spurður út í samningsmál, þar sem sögusagnir segja að West Ham sé nú þegar búið að bjóða honum nýjan samning.

„Ég á í frábæru sambandi við forseta félagsins og við erum ekki að flýta okkur að taka ákvörðun. Við ætlum að bíða til enda tímabilsins með að taka einhverja ákvörðun. Við vorum fallbaráttufélag þegar ég tók við hérna en núna erum við að berjast um Evrópusæti."
Athugasemdir
banner
banner