Á morgun verður haldið uppistandskvöld í Sykursalnum í Reykjavík þar sem öflugir grínistar stíga á svið. Aron Mola, Birna Rún, Bolli Már, Snjólaug Lúðvíks og Steiney Skúla troða upp og með þeim, með gestainnkomu, verður svo fótboltamaðurinn Ólafur Karl Finsen.
Óli Kalli varð á sínum ferli Íslandsmeistari bæði með Stjörnunni og Val. Hann var hluti af leikmannahópi Vals á síðasta tímabili en er án félags sem stendur. Fótbolti.net heyrði í Óla Kalla í dag.
Óli Kalli varð á sínum ferli Íslandsmeistari bæði með Stjörnunni og Val. Hann var hluti af leikmannahópi Vals á síðasta tímabili en er án félags sem stendur. Fótbolti.net heyrði í Óla Kalla í dag.
„Ég og Jóhann Alfreð höfum verið vinir lengi, mig hefur langað að prófa þetta, fékk boð um að fá að prófa og sagði já. Ég hef alveg talað í míkrófón áður, var með monologue í Þjóðleikhúskjallaranum um daginn og hef veislustýrt. Það var fólk sem þekkir mig sem fékk mig í það og veit að ég get verið hress, get grillað eitthvað. En ég hef aldrei verið með mic og haldið uppistand, þannig þetta verður frumraun," segir Óli Kalli.
„Ég er mökk stressaður sko, þetta verður bara að koma í ljós."
Er þetta eins og fyrir fótboltaleiki, ertu almennt stressaður fyrir leikina?
„Það er alltaf frammistöðukvíði. Ég er eiginlega stressaðri fyrir æfingaleikjum, því stærri leikurinn er og því fleiri áhorfendur eru þá finnst mér það þægilegra, þá finnst mér ég vera rólegri."
Ætlar þú að heyra í einhverjum, fá hlátur strax í byrjun svo þetta verði auðveldara?
„Það eru einhverjir sem ætla koma sem ég þekki, ég veit ekki hvað það verða margir. Mér þætti þægilegra ef það yrði fullur salur, svipað og með leikina í fótboltanum, stressaðri þegar fjöldinn er minni."
Hann segist ekki ætla að vera með neitt fótboltatengt efni á morgun, en það er samt aldrei að vita.
Smelltu hér til að kaupa miða
Skemmtilegra í Futsal
En hvernig sér hann fótboltann í dag? Ertu eitthvað að sprikla?
„Eiginlega ekki neitt, ég er svona eitthvað búinn að reyna, en þetta er einhvern veginn of erfitt. Mér finnst gaman í Futsal og eftir að ég prófaði það þá finnst mér eiginlega bara leiðinlegt í fótbolta."
„Með því skemmtilegra sem ég hef gert"
Hvernig fannst þér í fyrra, tíminn hjá Val?
„Mér fannst það geðveikislega gaman, eiginlega með því skemmtilegra sem ég hef gert. Þetta kom svolítið óvænt upp, ég var eiginlega hættur og það voru nokkrar tilviljanir sem urðu til þess að ég mætti á æfingu hjá Val. Mér fannst þetta bara ógeðslega gaman, en auðvitað leiðinlegt þegar leið á þegar gengið var ekki nógu gott. Mér fannst samt ekkert endilega eins og krafan hafi verið að við ættum að vinna mótið, en það hefði verið betra að vera lengur í baráttunni."
„Ég elska Val og þeir verða aftur komnir á toppinn eftir einhvern tíma."
„Ég hef mikinn áhuga á því að vinna með fólki og reyna hjálpa til. Það er bara ógeðslega gaman í fótbolta með leikmönnum sem eru góðir í fótbolta."
„Ég er mjög stoltur af því sem ég hef gert þarna, í minni vinnu vinn ég mikið einhverfa einstaklinga, en ég hef alltaf sagt það að einstaklingurinn sem ég hef náð mestum árangri með sé Gylfi Þór Sigurðsson," sagði Óli Kalli á léttu nótunum.
Vill frekar vera bara með og hjálpa til en að eiga vera aðalmaðurinn
Það er þá líklegra að einhver rekist á þig í Futsal heldur en úti á grasi að spila í sumar?
„Ef ég væri í einhverju standi... ég er bara ekki í neinu standi. Ég ákvað ekkert að hætta í vetur, ætlaði að halda áfram, ætlaði að leyfa þessu að koma til mín. En svo hefur þetta bara ekkert hreyft við mér, ég bara nenni þessu 0. Það er ekki af því að mér finnst fótbolti eitthvað leiðinlegur, ég er bara orðinn það gamall að mér finnst einhvern veginn allir betri en ég og ég upplifi mig bara fyrir hinum."
„Í Val fékk ég bara tækifæri að vera með og hjálpa eitthvað til. Ef þjálfarar hringja, ætla að gera mig að fyrirliða og ég verði á vítunum, hornspyrnunum og aukaspyrnunum, þá hugsa ég bara nei takk. Það væri frekar hægt að fá mig inn sem einhvern þriðja þjálfara eða slíkt," segir Óli Kalli.
Smelltu hér til að kaupa miða
Uppistandið hefst klukkan 20:30 en húsið opnar klukkutíma fyrr. Sykursalur er í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri, við Bjargargötu 1 í Reykjavík.
Athugasemdir