
Ingibjörg Sigurðardóttir var á skotskónum fyrir Bröndby er liðið tapaði óvænt fyrir AGF, 2-1, á heimavelli sínum í meistarariðli dönsku úrvalsdeildarinnar í dag. María Catharina Ólafsdóttir Gros var þá hetja sænska liðsins Linköping sem vann sinn fyrsta sigur í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Ingibjörg, sem gekk í raðir Bröndby frá Vålerenga fyrir tímabilið, kom danska liðinu yfir á 16. mínútu með öðru deildarmarki sínu á tímabilinu en AGF náði að snúa við taflinu í þeim síðari með tveimur mörkum.
Ingibjörg og Hafrún Rakel Halldórsdóttir spiluðu allan leikinn fyrir Bröndby sem tapaði þarna mikilvægum stigum í baráttunni um Meistaradeildarsæti en liðið er með 30 stig í 3. sæti, sem gefur þáttökurétt í Evrópubikarinn á næsta tímabili.
María Catharina, sem hefur verið í lykilhlutverki hjá Linköping, skoraði sigurmark liðsins í 1-0 sigrinum á Alingsås. Markið gerði hún á 23. mínútu og náði hún þarna í fyrsta sigur liðsins í deildinni.
Bryndís Arna Níelsdóttir var í byrjunarliði Växjö sem gerði 2-2 jafntefli við Vittsjö. Växjö er í 11. sæti með 4 stig eins og Linköping, þegar fimm umferðir hafa verið leiknar.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir byrjaði inn á hjá Anderlecht sem tapaði fyrir Leuven, 2-1, í titilbaráttuslag í belgísku úrvalsdeildinni.
Leuven náði að jafna Anderlecht að stigum á toppnum og eru bæði lið nú með 28 stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Diljá Ýr Zomers var ekki með Leuven vegna meiðsla.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir byrjaði inn á hjá RB Leipzig sem tapaði fyrir Essen, 3-0, í þýsku deildinni. Leipzig er í 8. sæti með 27 stig.
Sædís Rún Heiðarsdóttir var í byrjunarliði Vålerenga sem tapaði fyrir Brann, 3-0, í norsku úrvalsdeildinni. Vålerenga hefur tapað tveimur af síðustu þremur deildarleikjum sínum og er nú með 12 stig, sex stigum frá toppliði Brann.
Daníela Dögg Guðnadóttir kom inn af bekknum hjá Álasundi sem gerði 1-1 jafntefli við Kil/Hemne í norsku B-deildinni. Daníela spilaði allan síðari hálfleikinn fyrir heimakonur sem eru á toppnum með 11 stig eftir fimm leiki.
Málfríður Anna EIríksdóttir spilaði þá síðasta hálftímann er B93 tapaði fyrir Midtjylland, 4-1, í dönsku B-deildinni. B93 er í 4. sæti meistarariðilsins með 5 stig, átta stigum frá toppnum.
Athugasemdir