Arsenal reynir við Kounde - Vardy orðaður við Wrexham - Antony gæti verið áfram hjá Betis
   lau 26. apríl 2025 22:47
Ívan Guðjón Baldursson
Spænski bikarinn: Barcelona sigraði eftir framlengingu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Barcelona 3 - 2 Real Madrid
1-0 Pedri ('28)
1-1 Kylian Mbappe ('70)
1-2 Aurelien Tchouameni ('77)
2-2 Ferran Torres ('84)
3-2 Jules Kounde ('116)

Barcelona og Real Madrid áttust við í gríðarlega skemmtilegum úrslitaleik spænska konungsbikarsins. Það var gríðarlega mikið fjör í leiknum þar sem dómarinn leyfði honum að fljóta og var ekki að flauta eða spjalda mikið.

Tempóið var gríðarlega hátt en í fyrri hálfleik voru Börsungar talsvert sterkari aðilinn og verðskulduðu að taka forystuna með glæsimarki frá Pedri.

Pedri átti langa sendingu upp völlinn á Lamine Yamal sem gerði virkilega vel að halda boltanum úti á kantinum og nálgast vítateiginn. Yamal var rólegur og fann að lokum rétta sendingu, beint aftur á Pedri sem kom á harðaspretti frá eigin vallarhelmingi og kláraði með glæsilegu viðstöðulausu skoti úr D-boganum.

Madrídingar sáu ekki til sólar í fyrri hálfleik en Kylian Mbappé, sem var tæpur fyrir leikinn, kom inn af bekknum í hálfleik.

Það tók Mbappé 25 mínútur að jafna metin í galopnum og skemmtilegum síðari hálfleik. Hann skoraði flott mark beint úr aukaspyrnu, fast og lágt skot sem fór í stöngina og inn, skömmu áður en Aurélien Tchouameni skallaði hornspyrnu í netið til að taka forystuna fyrir Real.

Leikurinn var langt frá því að vera búinn því Lamine Yamal átti eftir að gefa aðra stoðsendingu þegar Ferran Torres jafnaði metin á ný. Yamal gaf hárnákvæma stungusendingu upp völlinn, þar sem Torres stakk Antonio Rüdiger af og hljóp framhjá Thibaut Courtois áður en hann skoraði í autt netið.

Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu í uppbótartíma en eftir nánari athugun í VAR-skjánum snéri hann ákvörðun sinni við og gaf Raphinha gult spjald í staðinn. Raphinha missteig sig innan vítateigs og nýtti tækifærið til að láta sig detta, án þess að fá snertingu.

Leikurinn fór því í framlengingu en Vinícius Júnior þurfti að fara meiddur af velli áður en þangað var komið.

Í framlengingunni var allt í járnum þar til á 116. mínútu, þegar Jules Koundé komst inn í misheppnaða sendingu frá Luka Modric á Brahim Díaz. Díaz var að hlaupa í burtu frá boltanum og rann til þegar hann reyndi að snúa við til að mæta sendingunni. Koundé komst á milli og skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti utan vítateigs.

Dramatíkinni var þó ekki lokið þar sem Madrídingar héldu að þeir hefðu fengið vítaspyrnu á 119. mínútu en í ljós kom að sóknarmaður Real var í rangstöðu í aðdragandanum.

Real tókst ekki að jafna leikinn svo Börsungar stóðu uppi sem sigurvegarar. Lokatölur 3-2.

Starf Carlo Ancelotti er í bráðri hættu og þurfa Madrídingar að vinna upp forystu Barca í titilbaráttu spænsku deildarinnar til að reyna að bjarga tímabilinu sínu. Óljóst er hvort Ancelotti mun stýra Real á HM félagsliða í sumar, en samningur hans við félagið rennur út eftir rúmt ár.

Það hitnaði heldur betur í kolunum í uppbótartíma framlengingarinnar þegar dómari leiksins stoppaði sókn Real Madrid til að hlúa að leikmanni Barcelona sem þóttist verða fyrir höfuðhöggi.

Antonio Rüdiger, sem var búið að skipta af velli, tók sérstaklega illa í þetta og fékk rautt spjald frá dómaranum. Hann brást við með að grípa í klakapoka sem hann ætlaði að kasta í dómarann, en varamannabekkur Real Madrid stöðvaði hann.

Það tók um það bil eina mínútu að róa Rüdiger niður og leiða hann af leikvanginum. Madrídingar voru langt frá því að vera ánægðir með dómgæsluna í leiknum og þá sérstaklega eftir þá miklu umræðu sem átti sér stað fyrir leik um dómara leiksins, Ricardo de Burgos Bengoetxea.
Athugasemdir
banner
banner