Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
banner
   sun 26. maí 2019 15:13
Ívan Guðjón Baldursson
Í fótspor föður og frænda
Nökkvi skoraði í sigrinum gegn ÍBV.
Nökkvi skoraði í sigrinum gegn ÍBV.
Mynd: Skapti Hallgrímsson
Mynd: Skapti Hallgrímsson
Blaðamaðurinn Skapti Hallgrímsson birti fróðlega grein um Nökkva Þeyr Þórisson sem skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í 2-0 sigri KA gegn ÍBV um helgina. Sú grein fylgir í óbreyttri mynd hér fyrir neðan.

Í fótspor föður og frænda! Nökkvi Þeyr Þórisson, 19 ára Dalvíkingur, skoraði fyrsta sinni í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta í gær, þegar KA vann ÍBV 2:0 á Akureyri. Markið gerði Nökkvi Þeyr á 80. mínútu með vinstri fótar skoti rétt utan markteigs eftir góðan undirbúning Daníels Hafsteinssonar.

Faðir Nökkva, Þórir Guðmundur Áskelsson, tók á sínum tíma þátt í 197 leikjum í meistaraflokki, langflestum með Þór, og gerði 13 mörk – þar af voru 77 leikir (og tvö mörk) í efstu deild. Fyrra markið í efstu deild gerði Þórir 21. ágúst 1994, þá 23 ára; sigurmarkið þegar Þór vann Stjörnuna 3:2 í Garðabæ. Skoraði með þrumuskoti af 20 metra færi á 78. mínútu.

Þess má svo geta til gamans að föðurbróðir Nökkva Þeys, Halldór Ómar Áskelsson, einn þekktasti knattspyrnumaður Akureyrar, gerði á sínum tíma 34 mörk í efstu deild fyrir Þór og tvö fyrir Val. Fyrsta markið í efstu deild gerði Halldór 9. júlí 1983 í 2:0 sigri Þórsara á Skagamönnum á Akranesi, 18 ára að aldri. Hann komst einn inn fyrir vörnina og skoraði með föstu skoti frá vítateig framhjá Bjarna Sigurðssyni, landsliðsmarkverði.

Móðir Nökkva Þeys, Hugrún Felixdóttir, lék fótbolta á sínum tíma en aldrei í efstu deild. Bróðir hennar, Heiðmar, þekktastur sem atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta, lék hins vegar í efstu deild í fótbolta; tók þátt í níu leikjum með Þór sumarið 1993, aðeins 16 ára, þar af var hann fjórum sinnum í byrjunarliðinu. Hann náði ekki að skora í efstu deild en gerði þónokkur mörk þau sumur sem hann lék með Þór eða Dalvík í neðri deildum, í sumarfríum, en Heiðmar lék þá sem atvinnumaður í handbolta í Þýskalandi og á Spáni! Fyrsta mark Heiðmars í deildarkeppni gerði hann 17. júlí 1997 þegar Dalvík sigraði Reyni úr Sandgerði 3:0 fyrir norðan.

Nökkvi Þeyr og tvíburabróðir hans, Þorri Mar, léku bæði með Dalvík og Þór í yngri aldursflokkum, áður en þeir sömdu við Hannover 96 í Þýskalandi. Þeir snéru aftur til Dalvíkur í fyrra og sömdu við KA fyrir þetta keppnistímabil.


Skapti starfaði fyrir Morgunblaðið í 40 ár og er meðal reyndustu blaðamanna landsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner