Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 26. maí 2020 15:13
Elvar Geir Magnússon
Sér eftir því að hafa ekki farið fyrr í bakvörðinn
Ragnar Bragi (til vinstri) er að fara í breytt hlutverk.
Ragnar Bragi (til vinstri) er að fara í breytt hlutverk.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það verður gaman að fara inn í nýtt mót í nýrri stöðu og með nýtt hlutverk," segir Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis. Hann var gestur í Niðurtalningunni í dag.

Ragnar Bragi er þekktur sem vængmaður en var settur í bakvörðinn hjá Fylki á undirbúningstímabilinu og honum líkar vel í nýrri stöðu.

„Það er ógeðslega gaman. Ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki farið í þessa stöðu á sínum tíma þegar ég kom aftur heim. Þetta hentar mér að mörgu leyti betur. Ég hef kannski ekki verið iðinn við kolann í deildinni síðustu ár. Þetta hefur verið mjög gaman í vetur, það er margt við þessa stöðu sem heillar mig en ég á margt eftir ólært í henni," segir Ragnar Bragi.

Hann segir að það hafi tekið tíma að venjast því að spila í bakverðinum og það hafi verið margt nýtt þegar hann spilaði þar fyrst.

„Já heldur betur. Það eru staðsetningar, halda línu og þessir varnarþættir í að vera í öftustu línu á vellinum. Að hafa ekki menn bak við sig. Það tók aðlögunartíma en við erum með Atla Svein (Þórarinsson) sem þjálfara. Hann var afburðar varnarmaður á sínum tíma og getur leiðbeint mér mjög mikið."

Afskaplega stoltur fyrirliði
Ragnar Bragi er tekinn við fyrirliðahlutverkinu hjá Fylki, eftir að Ólafur Ingi Skúlason sem var fyrirliði varð aðstoðarþjálfari.

„Það er hrikalega spennandi. Ég er afskaplega stoltur af þessu. Ég hef stefnt að þessu síðan ég var lítill pjakkur og byrjaði að sparka í bolta í Árbænum. Þetta finnst mér skemmtilegt næsta skref hjá mér sem leikmaður í Fylkisliðinu," segir Ragnar Bragi.

Mun þetta fyrirliðahlutverk breyta honum eitthvað inni á vellinum?

„Maður þarf að vanda sig og leiða með góðu fordæmi. Þeir eru samt ekki að velja mig sem fyrirliða til að ég verði allt annar leikmaður. Það er væntanlega einhver ástæða fyrir því að þetta er sett á mann. Maður vill taka næsta skref í ábyrgð innan félagsins og hjá liðinu. Þetta þroskar mann væntanlega."

Ragnar Bragi er spenntur fyrir tímabilinu en hann telur að Fylkir geti grætt á þessu hléi sem var gert á æfingum og keppni vegna kórónaveirufaraldursins. Flestir í liðinu þekkja hvern annan inn og út.

„Það hefðu allir viljað fá fleiri leiki fyrir mótið en fyrir lið eins og okkur sé ég tækifæri í þessu ástandi. Það hafa ekki öll lið náð að 'drilla' sig en við erum með kjarna sem þekkist vel. Ég sé þetta sem tækifæri fyrir lið eins og okkur," segir Ragnar Bragi Sveinsson en í spilaranum hér að neðan má hlusta á spjallið við hann í heild sinni.
Niðurtalningin - Nýr fyrirliði Fylkis og endurkoma fótboltans
Athugasemdir
banner
banner
banner