Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   sun 26. júní 2022 10:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Skýr skilaboð frá Ronaldo
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo.
Mynd: Getty Images
Jorge Mendes er að taka fundi.
Jorge Mendes er að taka fundi.
Mynd: Getty Images
Cristiano Ronaldo er sagður ósáttur við það hvernig Manchester United hefur verið að starfa á leikmannamarkaðnum í sumar.

United var að enda við það að eiga skelfilegt tímabil þar sem liðið missti af Meistaradeildarsæti og vann ekki einn titil.

Það hefur verið mikið talað um endurbyggingu og sagði Ralf Rangnick, sem stýrði United seinni hlutann á síðustu leiktíð, að það þyrfti opna hjartaskurðaðgerð til þess að laga stöðuna.

Samt sem áður hefur félaginu ekki tekist að landa neinum leikmanni hingað til. Það eru einhverjar viðræður í gangi en ekki mikið að frétta.

Þetta er að valda Ronaldo áhyggjum sem er með metnað um að vinna titla og ná árangri. Samkvæmt fjölmiðlum í heimalandi kappans þá er hann sagður vera að íhuga það að yfirgefa félagið ef það fer ekki að hífa upp um sig buxurnar á leikmannamarkaðnum.

Ronaldo er nú þegar farinn að senda sterk skilaboð ef marka má fréttir síðustu daga. Umboðsmaður hans, Jorge Mendes, er búinn að funda með nokkrum félögum og eru félög eins og Bayern München, Chelsea og Roma nefnd í því samhengi.

United vill ekki selja leikmanninn, en hinn 37 ára gamli Ronaldo - sem raðaði inn mörkunum á síðustu leiktíð - gæti beðið um sölu og krafist þess að fara ef staðan batnar ekki fljótlega.
Athugasemdir
banner
banner