
'Hann er með eiginleika sem við höfum ekki haft, ég held að hann verði frábær viðbót við sóknarleikinn okkar'

'Helsti styrkleiki Blikaliðsins, í það minnsta allra leikmanna sem eru í liðinu í dag og voru hjá mér, er sá að þeir áttu mjög auðvelt með að standa upp eftir að hafa verið kýldir niður, sem er styrkleiki öflugs liðs.'
„Burtséð frá úrslitunum á þriðjudag þá leggst þessi leikur bara frábærlega vel í mig af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi erum við að spila fyrsta leikinn okkar á heimavelli, sem verður frábært. Í öðru lagi erum við að mæta liði sem mun keyra á okkur og mun, vona ég, laða fram það allra besta í mínum mönnum," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, við Fótbolta.net.
KR tekur á móti Breiðabliki á Meistaravöllum klukkan 17:00 í dag Leikurinn er liður í 16. umferð Bestu deildarinnar og verður leikurinn fyrsti leikur KR á Meistaravöllum, heimavelli liðsins, í sumar. Það hefur tekið langan tíma að koma gervigrasi á Meistaravelli, en það er í höfn og getur KR nú leikið sína heimavelli á vellinum sínum.
KR tekur á móti Breiðabliki á Meistaravöllum klukkan 17:00 í dag Leikurinn er liður í 16. umferð Bestu deildarinnar og verður leikurinn fyrsti leikur KR á Meistaravöllum, heimavelli liðsins, í sumar. Það hefur tekið langan tíma að koma gervigrasi á Meistaravelli, en það er í höfn og getur KR nú leikið sína heimavelli á vellinum sínum.
„Í þriðja lagi er sérstök tilfinning að mæta leikmönnum sem maður þjálfaði lengi og upplifði frábærar stundir með, og líka erfiðar stundir. Það er líka sérstök tilfinning að mæta þjálfara sem ég vann lengi með og þykir vænt um. Það er mikil tilhlökkun."
Einn leikur og ein úrslit skilgreina ekki liðið
Breiðablik tapaði stórt í vikunni, 7-1 gegn Lech Poznan í forkeppni Meistaradeildarinnar. Óskar var þjálfari Breiðabliks eftir erfitt 6-2 tap í Bosníu gegn Zrijnski Mostar. Ef þú reynir að ímynda þér það, hvernig heldur þú að Blikum líði þessa dagana?
„Ég held að Blikaliðið sé búið að læra á undanförnum árum að úrslit eins leiks skilgreina þig ekki sem lið, ekki sem leikmann og ekki sem einstakling. Helsti styrkleiki Blikaliðsins, í það minnsta allra leikmanna sem eru í liðinu í dag og voru hjá mér, er sá að þeir áttu mjög auðvelt með að standa upp eftir að hafa verið kýldir niður, sem er styrkleiki öflugs liðs. Ég hef enga trú á öðru en að menn hafi verið svekktir og leiðir á þriðjudagskvöldið, en svo kemur nýr dagur og ný verkefni. Ég held að þeir hafi átt auðvelt með að hrista þetta tap af sér. Það er mín tilfinning og mín von að menn séu ennþá á þeim stað að láta ekki úrslit eins leiks skilgreina sig."
Ekki á ábyrgð andstæðinganna að spila eins og hentar KR
Eftir Skagaleikinn talaði Óskar um að hann hlakkaði til að mæta Blikum, liði sem þori að stíga á móti KR og spila fótbolta. Værir þú til í að fleiri lið í deildinni væru að reyna spila fótbolta á móti ykkur?
„Þetta er tvíeggja sverð, á sama tíma og ég get ekki sagt öðrum hvernig þeir eiga að leggja upp sína leiki - það eru hundrað leiðir til að nálgast fótboltaleik - þá hef ég kannski mest verið hissa hvað lið erum tilbúin til að fara langt frá því sem þau eru venjulega að gera þegar þau mæta okkur. Það hefur komið mér á óvart. En auðvitað er það þannig að við þurfum að verða betri í því að takast á við allt sem andstæðingarnir okkar bjóða upp á. Við þurfum að vera sterkari en það að 88 heppnaðar sendingar, og eitt skot á mark, dugi til að vinna okkur. Það er á okkar ábyrgð, það er ekki á ábyrgð andstæðinganna að spila þannig að það henti okkur best."
„En ég væri til í að sjá aðeins meiri fótbolta í leikjunum okkar, ég væri að ljúga að þér ef ég viðurkenndi það ekki."
Ástandið ekki verið betra
Hvernig er staðan á KR hópnum? Hvernig er Luke Rae sem hefur verið lengi frá?
„Það gæti allt eins verið að Luke Rae kæmi við sögu í þessum leik, hann er á góðu róli, hefur getað æft undanfarna daga sem er fínt. Ástandið á hópnum er eins gott og það hefur nokkurn tímann verið í sumar. Það eru flestir heilir."
Eins og hann hafi verið í KR í þrjú ár
Hvernig hefur fyrsta vika Amin Cosic verið hjá KR?
„Hann hefur komið virkilega sterkur inn, bara eins og hann hafi verið í KR í þrjú ár. Hann er búinn að vera mjög flottur, búinn að vera frábær með Njarðvík í Lengjudeildinni og hefur náð að flytja sjálfstraustið þaðan inn í æfingarnar hjá okkur. Hann er með eiginleika sem við höfum ekki haft, ég held að hann verði frábær viðbót við sóknarleikinn okkar."
Hvaða eiginleikar þá helst?
„Eiginleikar einn á móti einum sóknarlega, árásargirni að ráðast alltaf á manninn. Hann er svakalega hugmyndaríkur á síðasta þriðjungi og svo er hann góður pressumaður og duglegur. Hann er með marga hluti sem passa mjög vel fyrir okkur og er með marga hluti sem við höfum ekki hatt mikið af; eins og þetta að vera sterkur í stöðunni einn á móti einum."
Þakklæti til allra sjálfboðaliða
Hvernig verður að labba út á ykkar heimavöll með stuðningsmennina ykkar syngjandi í stúkunni?
„Ég held hún verði frábær, það verða örugglega miklar tilfinningar, fyrst og fremst gleði og líka þakklæti. Þakklæti til allra þeirra sjálfboðaliða sem eru búnir að vinna núna hörðum höndum að því að gera völlinn kláran og allt umhverfið klárt fyrir leikinn. Gleði og þakklæti, eru þau tvö orð sem ramma þetta ágætlega inn."
Eins viss og hann getur orðið
Hvernig býstu við Blikunum, heldur þú að þeir séu í hálfgerðum orkusparnaði; að rúlla liðinu, eða hvernig sérðu þetta?
„Ég held að þeir muni koma með bensínið í botni. Ég er eins viss og ég get orðið um það án þess að vera fluga á vegg í búningsklefanum hjá Breiðabliki, ég er nánast viss um að þeir munu pressa okkur hátt og keyra upp tempóið. Við þurfum að vera með hátt orkustig og klárir í að hlaupa með þeim, annars hlaupa þeir yfir okkur."
Leikmannahópurinn hreyfanlegt afl
KR hefur fengið Amin Cosic inn í hópinn í glugganum, sér Óskar fyrir sér að gera meira áður en glugginn lokar?
„Við erum alltaf að skoða, sagði ég ekki einhvern tímann að leikmannahópurinn væri hreyfanlegt afl? Ber okkur ekki skylda að vera ekki á hverjum tíma að skoða það hvernig við getum styrkt liðið? Bæði með því að menn bæti sig innan frá og með því að leita að leikmönnum sem passa inn og geta styrkt liðið."
„Við erum alltaf að skoða hvar við getum bætt hópinn. Kannski gerum við eitthvað ef við metum að það sé rétt fyrir okkur. En það erfiðasta í heimi er að styrkja lið á miðju sumri. Við höfum augun opin og vitum nokkurn veginn að hverju við erum að leita. Ef við finnum það, þá er það frábært. Ef við finnum það ekki, þá erum við með fínan hóp sem fær þá að þroskast áfram saman. Hvort sem verður, þá er það bara hið besta mál," segir Óskar.
Athugasemdir