„Þetta var verðskuldaður þýskur sigur, ótrúlega gott lið og við bara áttum ekki möguleika í dag.“ Sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir varnarmaður Íslands um sín fyrstu viðbrögð eftir 4-0 tap Íslands gegn Þýskalandi í Bochum í kvöld.
26.09.2023 18:23
Þungt tap gegn Þjóðverjum
Lestu um leikinn: Þýskaland 4 - 0 Ísland
Íslensku varnarlínunni gekk á köflum í leiknum afar erfiðlega að hafa hemil á sóknarmönnum þýska liðsins og gekk það stundum alls ekki eins og fjögur mörk fengin á sig vitna um. Er eitthvað sem betur hefði mátt fara í varnarleiknum?
„Það er erfitt að segja núna. Þær eru bara ótrúlega sterkar en vissulega hefðum við getað verið þéttari, unnið betur saman og átt betri samskipti og eitthvað svoleiðis en eins og þetta leit út fyrir mér voru þær bara að koma sér í góðar stöður og krossa. Mjög mikið af krossum og þær reyna alltaf að leita á bakvið línur. Svo kannski þegar það fer svona rosaleg orka í varnarleik allan tímann þá verður þetta þungt og erfitt. “
Hafði öll þessi orka sem í varnarleikinn fór áhrif á að liðinu gekk illa að sækja? Liðið fékk engar skyndisóknir og átti ekki skot á markið. Uppspilið erfitt?
„Já það var það. Þegar þú ert búin að sitja svona lengi,miðjan dregst niður þá verða framherjarnir rosalega einangraðir uppi. Og þegar við erum að reyna langa bolta úr öftustu línu þá segir það sig sjálft að það er alltof slitið á milli lína og við að senda í flikk á fremsta mann og engin í kring að styðja í rauninni. “
Sagði Arna en allt viðtalið við hana má sjá hér að ofan.
Athugasemdir