Á einn leik eftir sem leikmaður Breiðabliks
„Auðvitað erum við mjög vonsviknir. Að tapa 5-0 er alltof mikið. Þó að þeir séu mjög gott lið þá eru mörkin of ódýr og við þurfum að vera betra," sagði Klæmint Olsen, leikmaður Breiðabliks, við Fótbolta.net eftir leikinn gegn Gent í kvöld.
Lestu um leikinn: Gent 5 - 0 Breiðablik
Klæmint kemur sér eiginlega alltaf í færi þegar hann spilar með Breiðabliki en fékk ekki úr miklu að moða í dag.
„Ég veit ekki af hverju, það er erfitt að segja. Fyrirgjafarnir hittu ekki á þá staði sem ég var, ég var kannski á röngum stað. Við áttum góðar skyndisóknir og hefðum kannski átt að skora 1-2 mörk."
„Heilt yfir gerðum við ágætlega í leiknum, en í mörkunum gerðum við ekki nógu vel. Þeir eru mjög effektívir á lykilstundum. Þar er mesti munurinn."
Klæmint var spurður út í fyrsta mark Gent sem kom eftir hornspyrnu.
„Ég þarf að sjá þetta aftur, ég er ekki viss hvort það var maður sem var ekki dekkaður í teignum sem skoraði."
Á leið heim en ekkert til í ástæðunni
Þau tíðindi bárust í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin að Klæmint væri að leika sinn næstsíðasta leik fyrir Breiðablik í kvöld. Lánssamningur hans rennur út 16. nóvember og snýr hann þá aftur til Runavíkur í Færeyjum. Hann mun því ekki spila síðustu tvo leikina með Breiðabliki í riðlakeppninni.
„Samningur minn rennur út 16. nóvember. Það var samtal, en staðan hjá mér (personal situation) er þannig að ég er að fara heim," sagði Klæmint.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, sagði í viðtali eftir leik að Breiðablik hefði viljað halda Klæmint út riðlakeppnina.
Kristján Óli Sigurðsson sagði í þættinum að kona Klæmints væri búinn að fá nóg af Íslandi og það væri ástæðan fyrir því að hann væri á heimleið. „Konan hans segir að það sé ekki séns að hann verði áfram á þessu ógeðslega Íslandi, að hann skuli koma heim til Færeyja. Færeyskar húsmæður kalla ekki allt ömmu sína, það er ekki fræðilegur að hún hleypi honum í hina tvo leikina," sagði Kristján Óli í þættinum.
„Ég get sagt þér að fréttirnar sem ég sá í dag eru falsfréttir, þetta snýst ekki um það," sagði Klæmint.
Viðtalið við Klæmint má sjá í heild í spilaranum efst.
Athugasemdir