Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 27. janúar 2023 12:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Albert veit hvað hann þarf að gera til að komast í landsliðið"
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson hefur ekki verið í íslenska landsliðshópnum frá því í júní á síðasta ári.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, var ósáttur við hugarfar Alberts í því verkefni og hefur ekki valið hann síðan. Arnar sagði í samtali við Fótbolta.net á dögunum að sér þætti það eðlilegast að Albert myndi leita til sín til þess að ræða málin.

„Hurðin er alltaf opin hjá mér að taka samtalið við Albert. Ef það kemur ekki frá honum þá kemur einhvern tímann að því að ég taki upp símann. Það er ekkert skrifað í stein hvernig svona málum er háttað," sagði Arnar.

Það var aðeins rætt um þetta mál í útvarpsþættinum Fótbolta.net um síðustu helgi.

„Arnar er búinn að tala um að hann hafi ekki verið ánægður með hugarfarið hjá Alberti. Það styttist í mars verkefnið og það er stóra verkefnið. Við eigum tvo útileiki á móti Bosníu og Liechtenstein. Það er vonandi að þessi mál verði komin á hreint fyrir það. Þetta er leiðinlegt ský sem er yfir landsliðinu," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Hann var kosinn bestur hjá Genoa í desember. Albert veit hvað hann þarf að gera til að komast í landsliðið: Hann þarf að taka upp símann og biðjast auðmjúklega afsökunar. Er það flóknasti hlutur í heimi?" spurði Benedikt Bóas Hinriksson.

„Það ætti ekki að vera það. Albert hlýtur þá að vera líka mjög ósáttur við Arnar. Það hlýtur að vera einhver blanda af þessu. Honum hlýtur að langa að spila fyrir landsliðið," sagði Kári Kongó sem var einnig með í þættinum.

Adam Ægir Pálsson, vinur Alberts, mætti sem gestur í þáttinn og hann gat lítið tjáð sig um málið.

„Þetta er einn mesti heiður sem þú færð, að spila fyrir landsliðið. Ég held að það sé ekkert flókið að hringja í hann og leysa málin. Það myndi líklegast leysa það. Það er mjög erfitt fyrir mig að tjá mig um þetta."

„Við erum með Gumma Ben, það er pabbi hans. Hann er einn af mest 'likeable' mönnum í heimi. Er ekki hægt að gera þetta í gegnum hann? Það verði allir vinir. Þetta er stórt landsliðsár," sagði Benedikt en Albert sjálfur hefur ekki viljað tjá sig um þetta mál. Hann veit þó hver leiðin er ef hann ætlar að komast aftur í liðið.

„Við höfum ekki heyrt skoðun Alberts opinberlega. Við vitum ekki nákvæmlega hvað er búið að gerast bak við tjöldin. Þarna fær Albert skilaboð um það hver leiðin sé ef hann ætlar að snúa aftur í landsliðið," sagði Elvar Geir.

Næsta verkefni Íslands er í mars og er það fyrsta verkefnið í undankeppni EM. Það verður fróðlegt að sjá hvort Albert - sem hefur verið að leika vel á Ítalíu - verði kominn til baka í þann hóp.
Útvarpsþátturinn - Adam Páls, íslensk tíðindi og Arsenal fær rödd
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner