Man Utd ætlar að bjóða í Barkley - Varane og Casemiro aftur til Real?
banner
   fös 27. janúar 2023 10:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þeir gáfu mér séns þegar enginn vildi gefa mér séns"
Adam Ægir í leik með Keflavík.
Adam Ægir í leik með Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er búinn að lofsama Víking í hálftíma en ég gæti talað um Keflavík í fimm tíma," sagði Adam Ægir Pálsson, nýjasti leikmaður Vals, í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag.

Adam fór á kostum með Keflavík í fyrra þar sem hann var á láni. Hann endaði sem stoðsendingakóngur deildarinnar.

Adam ólst upp hjá FH en flutti svo til Spánar er hann var ungur. Hann lék með Keflavík í 2. flokki og kom svo inn í meistaraflokkinn þar.

Adam er mikill og skemmtilegur karakter, en hann sagði frá því í þættinum að margir þjálfarar hefðu ekki viljað líta við honum út af því. Hann er því mjög þakklátur fyrir tækifærið sem hann fékk hjá Keflavík.

„Þeir gáfu mér séns þegar enginn vildi gefa mér séns," sagði Adam.

„Þegar ég var í 2. flokki voru margir þjálfarar sem vildu ekkert með mig hafa út af þeim karakter sem ég er með. Það voru margir þjálfarar sem vildu ekki sjá mig. Samt vildi Keflavík semja við mig og gefa mér séns þegar enginn á Íslandi vildi neitt með mig hafa. Félagið gaf mér gríðarlegan séns og síðan hef ég verið þvílíkt þakklátur fyrir það."

Hann segir að Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, sé einn besti þjálfari landsins.

„Mér leið fáránlega vel þarna. Siggi Raggi er eins og pabbi minn nánast. Ég tala enn við hann daglega. Hann er einn besti þjálfarinn á landinu. Það er fáránlega þægilegt að tala við hann og fólkið í kringum félagið. Ég er ævinlega þakklátur fyrir Keflavík."

Sjá einnig:
Adam Páls: Hefði viljað stærra hlutverk en Arnar var með réttu svörin
Útvarpsþátturinn - Adam Páls, íslensk tíðindi og Arsenal fær rödd
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner