Man Utd tilbúið að hlusta á tilboð í Rashford og Martínez - Arteta vill Vlahovic - Ashworth gæti tekið til starfa hjá Arsenal
   sun 27. júní 2021 21:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Breiðablik sýndi sigurvilja - Toppbaráttan galopin
Kópavogur er grænn.
Kópavogur er grænn.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Andri Rafn er hetja Blika.
Andri Rafn er hetja Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Borg skoraði jöfnunarmark Fylkis.
Arnór Borg skoraði jöfnunarmark Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Það var mikil dramatík í leikjunum tveimur sem voru að klárast í Pepsi Max-deild karla.

Breiðablik lenti tvisvar undir gegn nágrönnum sínum í HK í baráttunni um Kópavog.

Arnþór Ari Atlason kom HK yfir eftir 22 mínútna leik. „Birnir Snær Ingason fær boltann rétt fyrir utan teiginn og leggur hann til hliðar á Arnþór Ara sem leggur boltann fyrir sig og á sturlað skot í nærhornið!! Þetta kom upp úr því að Anton Ari gaf beint á HK-ing úr marki sínu," skrifaði Arnar Laufdal í beinni textalýsingu.

HK fengu tækifæri til að komast í 2-0 en Blikar voru heilt yfir mun betri í fyrri hálfleik og þeir jöfnuðu metin á 44. mínútu Kristinn Steindórsson skoraði með skalla eftir horn.

HK fékk umdeilda vítaspyrnu þegar um 20 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Birnir Snær Ingason skoraði af öryggi.

Blikar gáfust ekki upp og þeir jöfnuðu úr víti á 84. mínútu. Thomas Mikkelsen skoraði úr vítinu en þremur mínútum síðar gerðist þetta: „Viktor Karl lyftir boltanum snyrtilega inn í teig, Andri lætur boltann skoppa einu sinni og á svo gjörsamlega geggjað skot í fjær sem fer stöngin inn!!!!"

Andri Rafn Yeoman kom Blikum í 3-2 og það reyndist lokaniðurstaðan. Breiðablik er komið upp í annað sæti, fimm stigum á eftir Val og með leik til góða á Hlíðarendafélagið. HK hefur verið í vandræðum í sumar og situr í 11. sæti með sex stig eftir 11 leiki spilaða.

Valur missteig sig
Það var ekki jafn skemmtilegur á Hlíðarenda þar sem Valsmenn tóku á móti Fylki.

Það er sem best að segja sem minnst um fyrri hálfleikinn, en Fylkir hefði nú getað tekið forystuna undir lok hálfleiksins. „Ég skil ekki hvernig Djair skoraði ekki en hann fékk boltann í sig einn á móti opnu marki og boltinn skoppaði framhjá," skrifaði Matthías Freyr Matthíasson í beinni textalýsingu.

Fylkismenn voru flottir, en Valur tók forystuna gegn gangi leiksins á 55. mínútu er Haukur Páll Sigurðsson skoraði eftir hornspyrnu.

Fylkir gafst ekki upp og Árbæingar jöfnuðu metin á 89. mínútu. Arnór Borg Guðjohnsen skoraði þá eftir gott samspil við Þórð Gunnar Hafþórsson. Báðir höfðu þeir komið inn á sem varamenn.

Staðan er þannig núna að Blikar setja mikla pressu á Valsmenn með því að vinna leikinn sem þeir eiga inni. Valur er áfram á toppnum en Fylkir er í sjöunda sæti.

Þess má geta að Víkingur getur komist á toppinn með því að vinna leikina tvo sem þeir eiga inni á Val.

HK 2 - 3 Breiðablik
1-0 Arnþór Ari Atlason ('22 )
1-1 Kristinn Steindórsson ('44 )
2-1 Birnir Snær Ingason ('71 , víti)
2-2 Thomas Mikkelsen ('84 , víti)
2-3 Andri Rafn Yeoman ('87)
Lestu nánar um leikinn

Valur 1 - 1 Fylkir
1-0 Haukur Páll Sigurðsson ('55 )
1-1 Arnór Borg Guðjohnsen ('89 )
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner