Það var tilkynnt núna fyrir stuttu að Hermann Hreiðarsson muni ekki stýra ÍBV áfram.
Eyjamenn verða því með nýjan mann í brúnni í Bestu deildinni á næstu leiktíð.
Eyjamenn verða því með nýjan mann í brúnni í Bestu deildinni á næstu leiktíð.
„Stjórn knattspyrnudeildar hefur átt gott samstarf með Hermanni undanfarin ár og var eindreginn vilji stjórnarinnar að halda því samstarfi áfram," segir í tilkynningu ÍBV í dag.
„Breytingar eru hins vegar að verða á búsetu Hermanns og hans fjölskyldu og því hans mat að hann hafi ekki tök á að halda áfram sem þjálfari liðsins."
Fótbolti.net hefur sett saman lista yfir þjálfara sem gætu hugsanlega stýrt ÍBV í Bestu deildinni á næstu leiktíð. Verður það einhver af þessum þjálfurum sem tekur að sér þetta starf?
Arnar Grétarsson - Náði virkilegum árangri með KA og lenti í öðru sæti með Val áður en hann var rekinn á yfirstandandi tímabili. Þjálfari sem er með mikinn metnað í því sem hann gerir.
Ágúst Gylfason - Hefur ekki þjálfað síðan hann var látinn fara frá Stjörnunni á síðasta ári. Er með mikla reynslu úr efstu deild og gæti án efa gert flotta hluti með Eyjamenn.
Brynjar Björn Gunnarsson - Er með reynslu af því að fara úr næst efstu deild og halda liði upp í efstu deild en hann gerði það vel með HK. Er í dag aðstoðarþjálfari Fylkis í Bestu deildinni.
Ejub Purisevic - Bætir leikmenn og býr til öflugt skipulag. Sá árangur sem hann náði með Víking Ólafsvík á tíma sínum þar er mjög merkilegur. Starfar í dag við afreksþjálfun hjá FH en það er spurning hvort honum kitli ekki í puttana að verða aftur aðalþjálfari.
Elísabet Gunnarsdóttir - Hóf sinn meistaraflokksferil sem þjálfari kvennaliðs ÍBV. Einn færasti þjálfari Íslands er á lausu eftir að hafa unnið frábært starf með Kristianstad í Svíþjóð.
Gregg Ryder - Hóf sinn feril á Íslandi sem aðstoðarþjálfari ÍBV. Hann hefur síðan þá stýrt Þrótti, Þór Akureyri og KR hér á Íslandi en hann var rekinn frá KR fyrr í sumar. Hefur einnig þjálfað hjá danska félaginu HB Köge.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson - Líklega ætti fyrsta símtal ÍBV að vera í Gunnar Heiðar sem náði frábærum árangri með Njarðvík í sumar. Gerði einnig góða hluti með KFS í Vestmannaeyjum. Mjög metnaðarfullur þjálfari sem hefur verið gagnrýninn á fótboltastarfið í Eyjum, en er samt með stórt hjarta fyrir ÍBV.
Gunnar Már Guðmundsson - Efnilegur þjálfari sem náði góðum árangri með Þrótt Vogum í sumar og var hann ekki langt frá því að fara með liðið upp úr 2. deild. Er fyrrum leikmaður ÍBV og þekkir eyjuna vel.
Ian Jeffs - Annar maður sem er með stórt hjarta fyrir ÍBV. Spilaði lengi þar á sínum leikmannaferli og var svo í þjálfun hjá félaginu þegar skórnir fóru upp á hillu. Stýrði Haukum í 2. deild í sumar.
Athugasemdir