Herdís Halla Guðbjartsdóttir og Harpa Helgadóttir hafa gengið aftur í raðir FH frá Breiðabliki og munu spila með Fimleikafélaginu í sumar.
Herdís Halla er efnilegur markvörður sem spilaði með FH seinni hluta síðasta sumars. Hún spilaði alls þrjá leiki með liðinu í Bestu deildinni og stóð sig vel.
Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað 47 keppnisleiki í meistaraflokki en hún hefur mikið spilað með Augnabliki, venslafélagi Breiðabliks.
Herdís, sem á að baki 19 yngri landsleiki, mun fara í samkeppni við landsliðsmarkvörðinn Aldísi Guðlaugsdóttir og stígur væntanlega í markið þegar Aldís fer til Bandaríkjanna í háskóla seinni hluta sumarsins. Hún kemur aftur á láni frá Breiðabliki.
Þá hefur Harpa Helgadóttir alfarið fengið félagaskipti yfir í FH frá Breiðabliki. Hún semur við FH út tímabilið 2026.
Harpa, sem er fædd árið 2006, spilaði tólf leiki með FH í deild og bikar á síðasta tímabili. Harpa getur spilað sem bakvörður og sem kantmaður.
FH hafnaði síðasta sumar í sjötta sæti Bestu deildarinnar eftir að hafa verið spáð neðsta sæti fyrir tímabil.
Athugasemdir