
Armenía 2 - 0 Ísland
1-0 Tigran Barseghyan ('53 )
2-0 Khoren Bayramyan ('74 )
Lestu nánar um leikinn
1-0 Tigran Barseghyan ('53 )
2-0 Khoren Bayramyan ('74 )
Lestu nánar um leikinn
Að komast inn á HM í Katar 2022 verður brekka.
Ísland byrjaði undankeppnina á því að tapa 3-0 fyrir Þýskalandi síðasta fimmtudag og í dag þurftu okkar menn að sætta sig við tap gegn Armeníu.
Armenía er í 99. sæti á heimslistanum en hefur verið að standa sig vel undir stjórn Spánverjans Joaquin Caparros. Samt sem áður var auðvitað gerð krafa á það að Ísland myndi vinna þennan leik. Bæði lið voru án síns besta manns; Armenía án Henrikh Mkhitaryan og Ísland án Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Ísland byrjaði ágætlega en Armenía vann sig inn í leikinn. Staðan var markalaus í hálfleik.
Í byrjun seinni hálfleiks tóku heimamenn forystuna. „Tigran Barseghyan skrúfar þennan bolta í stöngina og inn. Er með boltann við vítateigshornið og Ari Freyr bakkar of langt til baka," skrifaði Elvar Geir Magnússon í beinni textalýsingu.
Jón Daði Böðvarsson komst í góða stöðu stuttu síðar en skot hans fór beint á markvörðinn. Hann hefði getað rennt honum til hliðar á Kolbein Sigþórsson en ákvað þess í stað að skjóta.
Ísland átti ágætis tilraunir eftir það en tókst ekki að koma boltanum í netið. Einhverjir héldu líklega að Ísland væri að fá víti á 68. mínútu þegar Albert Guðmundsson féll innan teigs. Það var hins vegar dæmdur leikaraskapur á hann og var það réttur dómur.
Stuttu eftir það komst Armenía í 2-0. Aron Einar, fyrirliði, tapaði boltanum og Armenar geystust upp í sókn. Það endaði með því að Khoren Bayramyan átti skot í fjærhornið sem endaði í markinu.
Ísland náði ekki að minnka muninn og lokatölur 2-0. Ömurlegt, algjörlega skelfileg úrslit fyrir Ísland sem er núna langt niðri í brekku í þessum riðli, strax eftir tvo leiki. Liðið gerði ekki nóg í dag og við erum með núll stig. Armenía er aftur á móti með sex stig eftir nauman sigur á Liechtenstein í síðasta leik.
Ísland mætir Liechtenstein næsta miðvikudag.
Leikir kvöldsins í riðlinum
18:45 Norður-Makedónía - Liechtenstein
18:45 Rúmenía - Þýskaland
Athugasemdir