
4. deildarliðið Augnablik tapaði 0-5 fyrir Keflavík í Borgunarbikarnum í kvöld en leikurinn fór fram í Kórnum. Fótbolti.net ræddi við Sigurjón Jónsson, formann Augnabliks, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Augnablik 0 - 5 Keflavík
„Þetta var óþarfa forgjöf sem við gáfum þeim í byrjun, við vorum of linir og bárum fullmikla virðingu fyrir þeim í byrjun en svo var þetta hörkuleikur," sagði Sigurjón en Keflavík var komið þremur mörkum yfir eftir stundarfjórðung.
Stuðningsmenn Augnabliks vildu fá dæmdar rangstöður í tveimur af fyrstu mörkunum.
„Það sást um alla höll að tvö af mörkunum lyktuðu af rangstöðum. Það er ekki alveg hægt að klína þessu á tríóið en ég geri það samt. Dómararnir áttu ekki góðan dag og ég væri alveg til í að sjá fituprósentuna og hlaupatölurnar hjá þeim," sagði Sigurjón kíminn.
Sigurjón er í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í bæjarstjórnarkosningunum framundan í Kópavogi.
„Það er rjúkandi meðbyr með Framsóknarflokknum í Kópavogi. Það er bara X-B í Kópavogi, það er flokkurinn sem byggði þessa höll hérna."
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan en þar er meðal annars rætt um þjálfara Augnabliks, Hrafnkel Frey Ágústsson, sem er í banni og var vallarþulur í kvöld.
Athugasemdir