ÍBV tapaði í Árbænum í kvöld gegn Fylki. Eyjamenn eru áfram í fallsæti en liðið hefur tapað fimm leikjum í röð.
Lestu um leikinn: Fylkir 2 - 1 ÍBV
„Ég var ánægður með mikið í þessum leik. Við stýrðum leiknum, bæði með hápressu og með boltann. Við komumst í góðar stöður og fengum bestu færin," sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, eftir leikinn. Hann var ánægður með spilamennskuna og segir rosalega svekkjandi að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum.
„Það hefur ekki alveg verið stöðugleiki hjá okkur en við höfum verið inn í þessum leikjum, sérstaklega í dag. Frammistöðulega séð var ég ánægður með mikið."
Eiður Aron Sigurbjörnsson fyrirliði ÍBV meiddist í upphitun. Hvað kom fyrir hann?
„Það er hreinlega ekki vitað. Hann gat ekki hlaupið, þetta er mögulega eitthvað í mjöðminni."
Halldór Jón Sigurður Þórðarson fór svo af velli á börum í fyrri hálfleik.
„Það leit ekki vel út en við krossum fingur og vonum að það sé ekki alvarlegt. Við höfum verið í skakkaföllum."
Hermann segir að sér lítist vel á framhaldið eftir frammistöðu liðsins í dag. Þarf liðið að sætta sig við að hlutskipti þess í sumar verði fallbarátta?
„Við höfum sýnt að við getum unnið alla í þessari deild. Ef það kemur ágætis stöðugleiki og við náum upp góðri stemningu þá veit ég hvað við getum gert."
Athugasemdir