

Helena hefur þjálfað ÍA síðan 2016. Þar áður stýrði hún meðal annars Val, íslenska landsliðinu og Fortuna Ålesund. Sem leikmaður skoraði hún 139 mörk í 173 leikjum hér á landi.
Helena Ólafsdóttir, þjálfari ÍA, var svekkt eftir 0-6 tap gegn Fylki í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
Staðan var 0-1 í leikhlé en eftir tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks lá leiðin aðeins niður á við.
„Ég er sérstaklega svekkt með seinni hálfleikinn. Við vorum með ákveðið leikplan í hálfleik en svo fáum við strax á okkur mark og svo þriðja markið. Þá er þetta orðið erfitt og hausinn þungur á fólki," sagði Helena.
„Ef við reynum ekki að sækja þá skorum við ekki mörk og þá kemstu ekki áfram í bikarnum. Mér fannst vanta uppá sóknarleikinn okkar."
Helena var ekki sátt með dómgæsluna í leiknum og vildi fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Hún furðaði sig á ákvörðunum Gunnars Odds Hafliðasonar dómara.
„Varnarleikurinn var fínn í fyrri hálfleik og við hefðum jafnvel átt að fá víti. Það hefði gefið þessu liði trú, við erum með mjög ungan hóp sem brotnar kannski auðveldlega.
„Þeir eru búnir að skoða þetta hjá ÍATV þetta fyrra víti sem við áttum að fá og það var bara pjúra víti. Ég meina hvað er í gangi? Leikmaðurinn er tekinn niður í teig og þá er það bara víti. Ég er orðin hundþreytt á þessu."
ÍA er í hörkubaráttu í Inkasso-deildinni og stefnir á að spila í Pepsi-Max deildinni næsta sumar.
Athugasemdir