Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 28. júní 2020 17:47
Ívan Guðjón Baldursson
Svíþjóð: Kolbeinn lagði upp gegn Arnóri Ingva
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
AIK 2 - 2 Malmö
1-0 Sebastian Larsson ('45)
2-0 Bilal Hussein ('58)
2-1 Jo Inge Berget ('70)
2-2 Isaac Thelin ('90, víti)

Kolbeinn Sigþórsson og Arnór Ingvi Traustason voru í byrjunarliðunum er AIK og Malmö mættust í stóreik í sænska boltanum.

Liðin mættust nokkrum dögum fyrr í bikarnum og hafði Malmö betur í þeim leik, 4-1. Minna púður var lagt í þá viðureign og byrjuðu Kolbeinn og Arnór Ingvi á bekknum.

Sænski miðjumaðurinn Sebastian Larsson, sem hóf ferilinn hjá Arsenal og lék einnig fyrir Birmingham og Sunderland, skoraði fyrsta mark leiksins fyrir AIK beint úr aukaspyrnu rétt fyrir leikhlé.

Bilal Hussein tvöfaldaði forystu AIK með glæsilegu marki á 58. mínútu eftir sendingu frá Kolbeini. Gestirnir voru þó ekki á því að gefast upp, enda búnir að eiga fín færi.

Kolbeinn og Arnór Ingvi voru teknir af velli skömmu eftir mark Hussein.

Jo Inge Berget, fyrrum leikmaður Cardiff og Celtic, minnkaði muninn á 70. mínútu þegar hann fylgdi vítaspyrnu Isaac Thelin eftir.

Það var á 90. mínútu sem Thelin steig aftur á punktinn. Í þetta sinn brást honum ekki bogalistin og tryggði hann Malmö stig á erfiðum útivelli.

AIK er með sjö stig eftir fjórar fyrstu umferðir deildartímabilsins. Malmö er með sex stig.
Athugasemdir
banner