Nýliðar ensku úrvalsdeildarinnar Sunderland eru að reyna að kaupa miðvörð úr röðum Bologna á Ítalíu.
Sá heitir Jhon Lucumí og er 27 ára gamall landsliðsmaður Kólumbíu. Hann myndaði gríðarlega öflugt miðvarðapar hjá Bologna ásamt Sam Beukema, sem var seldur til Ítalíumeistara Napoli fyrr í sumar.
Lucumí hefur verið fastamaður í byrjunarliði Bologna frá komu sinni til félagsins fyrir þremur árum. Núna er hann með tvö ár eftir af samningi og sagður vera spenntur fyrir nýrri áskorun.
Bologna hefur hingað til hafnað öllum tilboðum í Lucumí en félagið er sagt vera reiðubúið til að selja hann fyrir um 30 milljónir evra.
Nýtt tilboð Sunderland hljóðar upp á 28 milljónir og 10% af hagnaði á endursölu. Góðar líkur eru á að Bologna samþykki þetta tilboð.
Sunderland er búið að kaupa mikið af leikmönnum inn í sumar og yrði Lucumí sá þrettándi til að ganga til liðs við félagið í glugganum.
Hjá Sunderland myndi Lucumí berjast við menn á borð við Dan Ballard og Omar Alderete um sæti í byrjunarliðinu. Bakverðirnir Nordi Mukiele og Arthur Masuaku spiluðu í miðvarðarstöðunum í síðasta leik, sem tapaðist óvænt á heimavelli gegn Huddersfield í enska deildabikarnum.
Athugasemdir