Van Dijk íhugaði Real - Anderson til í að fara til United - Sancho má fara frítt - Real ætlar að selja Vinicius
   mið 05. nóvember 2025 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þá er enginn betri en Pétur Pétursson"
Kvenaboltinn
Pétur Pétursson.
Pétur Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er enn óvíst hver tekur við Íslands- og bikarmeisturum Breiðabliks en Nik Chamberlain er að hætta störfum eftir tvö frábær ár.

Pétur Pétursson hefur verið orðaður við starfið en Adda Baldursdóttir, fyrrum aðstoðarþjálfari hans hjá Val, sagði í síðasta þætti af Uppbótartímanum að enginn væri búinn að hringja í Pétur.

Heyrst hefur að Blikar hafi rætt við Gunnar Borgþórsson, fyrrum þjálfara Selfoss, en hann muni ekki taka við starfinu. Ian Jeffs, sem þjálfaði síðast karlalið Hauka, er núna orðaður við starfið.

„Það hefur enginn hringt í Pétur," sagði Adda í Uppbótartímanum í síðustu viku.

„Ég er lituð að sjálfsögðu þar sem ég vann með honum í fimm ár, bæði sem leikmaður og aðstoðarþjálfari. Hann er krefjandi og setur gríðarlegar kröfur á þau sem vinna með honum. Hann setur gríðarlegar kröfur á stjórnir. Ég held að mörg félög séu hrædd við að fá svona mann inn - sem ég skil ekki," sagði Adda jafnframt.

Breiðablik hefur verið mjög sigursælt félag síðustu ár. Ætti Pétur ekki að vera efstur á lista ef félagið vill halda áfram að vinna?

„Hann væri fyrsti maðurinn sem ég myndi hringja í og er fyrsti maðurinn sem ég ráðlegg þeim að hringja í. Það fer eftir því hvað Breiðablik ætlar að gera. Ætla þau að yngja upp liðið eins og maður hefur heyrt? Ef þau ætla að halda áfram að vera 'winning machine' þá er enginn betri en Pétur Pétursson. Það get ég fullyrt," sagði Adda.

Það eru tíu mikilvægir leikmenn úr liði Breiðabliks að verða samningslausir og óvíst með þeirra framtíð, en það skiptir miklu máli hver tekur við liðinu upp á þessi samningamál að gera.
Uppbótartíminn - Nik kveður og félög skera niður
Athugasemdir
banner