Helgi Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Fram, er ánægður með 2-0 sigur sinna manna á Val í kvöld. Hann stýrði liðinu í fjarveru Rúnars Kristinssonar, sem tók út leikbann.
Lestu um leikinn: Fram 2 - 0 Valur
„Ég er mjög sáttur, þetta var sanngjarn sigur. Við lögðum mikið í þennan leik gegn góður liði Valsmanna og ætluðum okkur sigur. Það tókst sem betur fer."
Valsmenn sköpuðu lítið sem ekkert í dag og náðu Fram að halda liðinu vel í skefjum.
„Þetta var framhald af leiknum gegn Víking. Þar vorum við mjög sterkir varnarlega og fáum svo á okkur víti sem var aldrei víti. Við erum einbeittir á það að halda þeirri vegferð áfram að vera með sterkan varnarleik og vera þéttir."
Fram er ekki að spila upp á mikið meira en bara stoltið, það var þó ekki að sjá á leikmönnum liðsins.
„Það er stór munur á því að enda tímabil vel eða illa. Ef maður enda þetta vel þá fer það með manni inn í veturinn. Það er líka stór munur á því að enda í sjötta eða fimmta sæti og þá jafnvel því fjórða. Fjórða sætið er innan seilingar og við verðum að hugsa stórt."
Gareth Owen, markmannsþjálfari Fram, var ekki á bekknum í kvöld en hann er að yfirgefa liðið nú í lok tímabils.
„Gareth hefur verið mjög góður fyrir þetta félag. Hann á allan heiður skilið. Það kemur maður í manns stað og við hljótum eitthvað út úr því, það er alltaf missir af góðum mönnum."
Athugasemdir