Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
   sun 28. nóvember 2021 14:07
Aksentije Milisic
Frakkland: PSG vann tíu leikmenn St Etienne í fyrsta leik Ramos
Mynd: EPA
Saint Etienne 1-3 PSG
1-0 Denis Bouanga ('25)
1-1 Marquinhos ('45)
1-2 Di Maria ('79)
1-3 Marquinhos ('90)
Rautt spjald: Timothée Kolodziejczak (Saint Etienne)

Hádegisleikurinn í franska boltanum í dag var viðureign Saint Etienne og PSG og var leikurinn mjög fjörugur. Sergio Ramos spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í dag.

Kylian Mbappe fékk tvö dauðafæri til að skora fyrir PSG í fyrri hálfleiknum en markvörður heimamanna sá við honum í bæði skiptin.

Neymar hélt að hann hefði komið PSG yfir eftir sendingu frá Lionel Messi en eftir stutta stund var markið dæmt af með hjálp myndbandsdómgæslunnar.

Fyrsta mark leiksins kom á 25. mínútu en þá skoraði Denis Bouanga fyrir þá grænklæddu. Í fyrstu var markið dæmt af vegna rangstöðu en eftir mikla bið og VAR skoðun, þá var markið dæmt gott og gilt við mikinn fögnuð heimamanna.

Á 45. mínútu fór hins vegar allt í skrúfurnar hjá Saint Etienne. Timothée Kolodziejczak straujaði þá Mbappe niður sem var að sleppa í gegn og fékk hann rautt spjald. Lionel Messi tók aukaspyrnuna og fann kollinn á Marquinhos sem stangaði knöttinn frábærlega í netið.

Það tók PSG langan tíma að finna leiðina í netið hjá tíu leikmönnum Etienne í síðari hálfleiknum. Lionel Messi klúðraði algjöru dauðafæri um miðja síðari hálfleikinn.

PSG tókst hins vegar að finna leiðina á 79. mínútu en þá fann Messi samlanda sinn Angel Di Maria sem skilaði knettinum í netið.

Marquinhos skoraði sitt annað mark og gulltryggði sigur PSG í uppbótartíma en hann stangaði þá knöttinn aftur í netið eftir fyrirgjöf Lionel Messi. Argentínumaðurinn lagði upp öll þrjú mörk PSG í leiknum.

Undir lok leiks var Neymar borinn af velli en hann var nokkrum sinnum tekinn niður í þessum leik. Ekki er enn vitað hvort meiðslin séu alvarleg.

PSG er hvorki með meira né minna en fjórtán stiga forystu á toppi deildarinnar í Frakklandi. St Etienne er í neðsta sætinu eftir þetta tap.


Athugasemdir
banner