Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 28. nóvember 2023 16:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ole Martin hættur hjá KR (Staðfest) - Verður aðalþjálfari í Noregi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ole Martin Nesselquist, sem var aðstoðarmaður Rúnars Kristinssonar hjá KR á síðasta tímabili, verður samkvæmt heimildum Fótbolta.net ekki áfram hjá félaginu.

Uppfært 16:10: KR birti rétt í þessu tilkynningu þar sem tíðindin voru staðfest. Tilkynninguna má sjá neðst í fréttinni. Þar kemur fram að Ole Martin hafi óskað eftir leyfi frá KR til að gerast aðalþjálfari hjá liði í heimalandinu Noregi.

Ole Martin er þrítugur Norðmaður sem var ráðinn til KR fyrir ári síðan. Hann var aðstoðarþjálfari liðsins og sagði Gregg Ryder, nýr þjálfari KR, að Ole Martin yrði áfram hjá félaginu.

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, var spurður út í Ole Martin þegar Gregg var tilkynntur. Þá væru sögur um að Rúnar Kristinsson vildi fá þann norska með sér til Fram.

„Ég hef ekki heyrt þær sögur. Minn fókus hefur fyrst og fremst verið á að einblína á að klára þessa þjálfararáðningu og þegar það er frá setjumst við niður og skoðum landið og hvernig þjálfararnir ná saman. Ég þykist vita að Rúnar myndi vilja fá hann með sér því Ole Martin er frábær þjálfari og hefur fullt af kostum. Það kæmi mér ekki á óvart ef það væri vilji fyrir því en hann er samningsbundinn KR. Það er ekkert í pípunum þess efnis að KR sleppi honum," sagði Páll.


Tilkynning frá KR
Ole Martin Nesselquist og Knattspyrnufélag Reykjavíkur hafa komist að samkomulagi um samningslok þar sem að Ole Martin óskaði eftir leyfi frá félaginu til þess að gerast aðalþjálfari hjá liði í heimalandi sínu, Noregi.

Ole Martin kom til KR í upphafi árs 2023 og samdi til loka árs 2025, en þegar tækifæri bjóðast þá er það stefna KR að ekki standa í vegi fyrir því að þjálfarar eða leikmenn fái tækifæri að taka skref fram á við í sinni þróun.

KR þakkar Ole Martin fyrir frábært starf í þágu félagsins og óskar honum um leið velfarnaðar í nýju starfi.

„Mig langar að þakka öllum KR-ingum fyrir skemmtilegt og spennandi ár sem senn er að líða. Ég naut hverrar stundar að vera hluti af KR-fjölskyldunni og að búa í Vesturbænum. Nú er tíminn réttur fyrir mig að taka næsta skref á ferlinum, en ég mun alltaf hugsa til baka til míns tíma hjá KR með hlýhug. Þá langar mig að þakka fyrir tækifærið sem ég fékk hjá KR og þakka öllum leikmönnum og starfsfólki KR fyrir að gera árið ógleymanlegt. Að lokum vil ég óska Gegg, öðrum þjálfurum og leikmönnum alls hins besta á nýju ári og er viss um að það séu bjartir tímar framundan hjá KR," segir Ole Martin
Athugasemdir
banner
banner